Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 14:35:00 (4205)

     Valgerður Sverrisdóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Þannig er að ég hafði undirbúið mig til að tala nokkuð í þessu máli en þar sem það liggur nú fyrir að hér hafa talað á milli fimm og tíu stjórnarsinnar og allir sett meira og minna út á þetta frv., ekki síst síðasti ræðumaður, og formaður umhvn. gaf það fyllilega í skyn hér í umræðunni á mánudaginn að þetta mál kæmi aldrei frá nefnd, hann sagði að það hefði verið betur heima setið en af stað farið, þá finnst mér að það þurfi að liggja fyrir af hendi hæstv. ráðherra áður en lengra er haldið hvort hér er um stjfrv. að ræða. Það hefur hver einasti stjórnarsinni sem tekið hefur til máls í umræðunni sett meira og minna út á frv. Og síðasti ræðumaður lagðist alfarið gegn því. Eru viðhöfð einhver ný vinnubrögð í stjórnarþingflokkunum um framlagningu stjfrv.? Eða hvað? Mér finnst að þetta þurfi að liggja fyrir áður en lengra er haldið, hæstv. forseti.