Auglýsingakostnaður í dagblöðum og sjónvarpi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:12:00 (4239)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það hryggir mig dálítið að verða vitni að því hvernig þinginu er stjórnað. Í 49. gr. þingskapalaga segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Óski alþingismaður upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni eða einstakt atriði þess gerir hann það með fyrirspurn er afhent skal forseta. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði og mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.``
    Þetta er alveg ótvírætt í þingskapalögum. Ekki var gerð athugasemd við þessa fyrirspurn og mér sýnist að hægt sé að svara henni með 8 tölum eða svo. Þannig að ég sé ekki hvað veldur því að hæstv. fjmrh. víkur sér undan að svara fyrirspurninni. Og mér eru það mikil vonbrigði að hæstv. forseti skuli taka þannig á málum að láta það óátalið að ráðherrann fari í pólitískt keilustríð sem hann og fleiri þingmenn hafa efnt til í þessu máli og forseti láti ráðherrann komast upp með það að svara ekki fyrirspurninni.

    Virðulegur forseti. Til hvers eigum við þingmenn að snúa okkur ef forseti aðstoðar okkur ekki í því að fá þær upplýsingar fram sem beðið er um með þeim hætti sem kveðið er á um?