Svört atvinnustarfsemi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:45:00 (4254)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Þetta voru allt gamlar upplýsingar sem hann kom hér fram með, en sú tala sem hann nefndi hér, 23 milljarðar króna, sem vænta má að sé skotið undan skatti, bendir náttúrlega til þess að hér er um risavaxið og mjög nauðsynlegt verkefni fyrir ríkið að ræða að koma böndum á þennan undandrátt.
    Ég vil benda hæstv. fjmrh. á að auðvitað eiga fleiri þjóðir við þennan vanda að glíma. Ég minnist þess að hafa heyrt fréttir frá Ítalíu þar sem menn voru að reyna að áætla svarta markaðinn, en þar er mikil glæpastarfsemi, og voru þeir m.a. að reyna að gera sér grein fyrir umsvifum mafíunnar. Við erum sem betur fer ekki að glíma við hana hér. Í skýrslu nefndarinnar sem áður var minnst á kemur fram að gerð var könnun. Þeir könnuðu 800 manna úrtak og bentu á það í skýrslunni að nauðsynlegt sé að gera slíka könnun á hverju ári til þess að fylgjast með þessum undandrætti.
    Ég vil líka benda hæstv. fjmrh. á það, og ég held að við vitum það öll, að í byggingarstarfsemi eiga sér stað mikil nótulaus viðskipti og í hvers konar viðgerðum sem fólk þarf að standa í. Ég held að eina leiðin til þess að ná einhverjum tökum á þessu sé sú að húseigendur og íbúðareigendur sjái sér einhvern hag í því að standa skil á því viðhaldi sem fram fer í byggingum. Ég vil beina þessu til fjmrh. að athuga þann þátt, þó að menn séu á móti undanþágum í skattalögum þá þarf að vera einhver slíkur frádráttur til þess einfaldlega að fólk sjái sér hag í að gera skil á slíku ef það mætti verða til þess að betri skil yrðu á skatti til ríkissjóðs.