Fullorðinsfræðsla

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:08:00 (4264)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Spurt er hvernig miðar undirbúningi þess að lagt verði fram á Alþingi frv. til laga um fullorðinsfræðslu.
    Í umræðum í vetur um frv. hæstv. félmrh. um starfsmenntun í atvinnulífinu greindi ég frá þeirri skoðun minni að ég teldi æskilegast að hafa eina rammalöggjöf um fullorðinsfræðslu á vegum menntmrn. Í fyrri ríkisstjórn hafði orðið samkomulag um að leggja fram tvö frv., annars vegar um starfsmenntunina á vegum félmrn. og hins vegar um almenna fullorðinsfræðslu á vegum menntmrn. Ég vildi því láta athuga hvort leggja ætti fram óbreytt það frv. um almenna fullorðinsfræðslu sem áður hafði verið lagt fram hér á Alþingi. Niðurstaðan er sú að stefnt er að því að leggja frv. fram lítið eitt breytt frá því sem var á fyrra þingi og þetta frv. verður lagt fram alveg á næstunni. Ég geri mér vonir um að það geti orðið í næstu viku.
    Einnig er spurt hvernig og í hve miklum mæli ráðherra hyggst nýta fræðsluvarpið sem kennslumiðil í fullorðinsfræðslu.
    Á árinu 1989 var gerð tilraun með fræðsluvarp í samstarfi Ríkisútvarpsins og framkvæmdanefndar fjarkennslu. Því miður lagðist það af vegna peningaleysis. Forráðamenn Ríkisútvarpsins töldu sig ekki geta tekið við fræðsluvarpinu nema til kæmi sérstök fjárveiting. Þeir létu líka í ljósi vissar efasemdir um að fræðsluvarp í útvarpi og sjónvarpi í tengslum við skólastarf væri í takt við tímann þegar þess er gætt hver þróunin hefur orðið í notendabúnaði, þ.e. myndböndum og hljóðböndum. Fjárveitingar til fjarkennslu hafa ekki aukist á undanförnum árum og því hefur fræðsluvarpið ekki farið af stað aftur.
    Vissulega væri æskilegt að geta nýtt fræðsluvarp sem kennslumiðil fyrir fullorðna en það er dýrt að vinna gott fræðslu- og kennsluefni. Útsendingarkostnaður er líka talsverður. Á dögum fræðsluvarpsins gerði Ríkisútvarpið kröfu um að fá greiddar 40.000 kr. fyrir hverja útsenda stund í sjónvarpi. Einnig voru örðugleikar á að fá nægilega hentugan útsendingartíma. Miðað við stöðu fjármála í dag tel ég vart mögulegt að leggja það fé í fræðsluvarp sem er nauðsynlegt til að það gagnist sem kennslumiðill í fullorðinsfræðslu. En ég vil ekki útiloka að þær aðstæður skapist hjá okkur að hægt verði að efla fullorðinsfræðslu í gegnum fræðsluvarp og vísa ég þar m.a. til þeirra hugmynda sem uppi hafa verið hjá Háskóla Íslands um sjónvarpssendingar.