Húsaleigubætur

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:00:00 (4290)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það liggur ekkert fyrir um það að hækka eigi vexti á leigjendur eða á leiguíbúðir án þess að komnar séu á einhvers konar húsaleigubætur eða styrkir. Ég vil mótmæla því sem sett hefur verið fram varðandi það að skerða eigi kjör leigjenda með vaxtahækkunum.
    Ég vil líka segja það, virðulegi forseti, að þegar Jón Baldvin Hannibalsson var fjmrh. var það hans verk, hann var nú ekki lengi í stól fjmrh., að einfalda skattkerfið m.a. til þess að skapa svigrúm fyrir húsaleigubótum. Það var auðvitað mikill ólestur á húsnæðismálunum þegar Alþfl. kom að þeim og taka þurfti málin í réttri röð. Við vildum byrja á því að byggja upp félagslega kerfið og leiguíbúðir. Síðan voru húsaleigubætur á dagksrá einmitt þegar Alþb. kom inn í ríkisstjórnina og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson varð fjmrh. Þannig að frumkvæðið að því að koma húsaleigubótunum á var fyrst og fremst í höndum fjmrh.
    Síðan ætla ég að segja það við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson að þó hátekjuskattur komist á getur hann ekki borgað alla skapaða hluti. Sú leið sem Alþb. bendir alltaf á þegar vantar peninga er hátekjuskattur. En það er bara svo að þó hann komist á getur hann ekki staðið undir öllum útgjöldum sem ríkissjóður þarf að bera.