Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:59:00 (4314)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegur forseti. Einhverra hluta vegna hafa menn kosið að hnýta í þessa endurskoðunarnefnd sem nú vinnur að endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni og það er rétt að árétta það, á sjávarútvegsstefnunni. Það þykir mér nokkuð undarlegt í ljósi þeirra merkilegu upplýsinga sem einmitt þessi nefnd lét vinna og hafa verið grundvöllurinn að þeirri þýðingarmiklu umræðu sem fram hefur farið um rekstrarstöðu sjávarútvegsins, raunverulega verið grundvöllurinn að því að menn gætu áttað sig á með tölulegum staðreyndum hver rekstrarstaða sjávarútvegsins er í dag. Ég vil árétta það að nú fer fram endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni. Þar er verið að taka tillit til mjög margra hluta, bæði er snúa að fiskveiðunum og einnig fiskvinnslunni og enn fremur því sem skiptir auðvitað öllu máli í þessu sambandi sem er það hvort þessi grein geti lifað til frambúðar og hvernig hægt er að treysta undirstöður rekstrar hennar. Að þessu hefur ekki verið hugað undanfarin ár eins og margoft hefur komið fram og er náttúrlega að sannast núna. Umræðan hefur verið að mínu mati á verulegum villigötum vegna þess að hún hefur snúist fyrst og fremst um fiskveiðistefnuna án þess að taka tillit til allra þeirra þátta sem taka þarf tillit til. Þess vegna ber sérstaklega að fagna því að þessi endurskoðunarnefnd vinnur nú að endurskoðun og mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu og gerir það eins og allir vita í samstarfi við hagsmunaaðila eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.