Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:09:00 (4318)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Í þeim knappa tíma sem hér hefur verið til að svara þessari fsp. hefur hæstv. sjútvrh. vikið að einhverjum stærstu málum okkar þjóðarbús með þeim hætti að það er alveg óhjákvæmilegt að fram fari ítarlegri umræða um það hér á Alþingi sem fyrst.
    Formaður nefndar, annar af tveimur, sem ríkisstjórnin hefur sett upp, Þröstur Ólafsson, hefur um tveggja vikna skeið haldið fram eindregnum skoðunum um það hvernig eigi að bregðast við vanda sjávarútvegsins. Hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnin hafa vísað til þeirrar nefndar, sem Þröstur Ólafsson er formaður í, annar af tveimur, að gera tillögur til lausnar á vanda sjávarútvegsins. Hæstv. viðskrh. gerðist sérstakur fundarstjóri á fundi sem Alþfl. hélt fyrir fáeinum dögum. ( Sjútvrh.: Eru þetta þingsköp?) Ég er að koma að því, hæstv. sjútvrh., og alveg óþarfi fyrir sjútvrh. að vera svona órólegur þótt þetta sé dregið fram. Hæstv. viðskrh. gerðist sérstakur fundarstjóri á þeim fundi sem Alþfl. hélt til þess að blessa þau sjónarmið sem Þröstur Ólafsson hefur sett fram og nú kemur hæstv. sjútvrh. og segir alveg skýrt að annar af tveimur formönnum í nefnd ríkisstjórnarinnar, Þröstur Ólafsson, tali bara fyrir sjálfan sig. Hann er sem sagt ekki í neinum takti við hæstv. sjútvrh. eða stefnu ríkisstjórnarinnar. Nú er það auðvitað svo að þeir sem glíma við þessi vandamál í sjávarútvegi, eigendur útgerðarfyrirtækjanna og fiskvinnslufyrirtækjanna, þurfa á næstu vikum og mánuðum að velta því alvarlega fyrir sér hvað þeir eiga að gera. Eiga þeir að fara með fyrirtækin í greiðslustöðvun? Eiga þeir að selja þau? Eiga þeir að fara í gjaldþrot? Hvað eiga þeir að gera? Þeir horfa eðlilega á það hver verður líklega niðurstaða hjá ríkisstjórninni, a.m.k. í því máli sem var vísað til nefndarinnar síðar, að gera tillögur um aðgerðir í málefnum sjávarútvegsins.
    Erindi mitt hér upp undir þingsköpum, virðulegi forseti, var að fara fram á það við hæstv. sjútvrh., sem ég vona að vilji gera sitt til þess að eðlileg umræða geti farið fram hér á Alþingi um þessi mál, að hann flytji Alþingi í næstu viku eða þar næstu viku í síðasta lagi sérstaka skýrslu um störf þessarar nefndar og stöðu sjávarútvegsins, hvort sem það er skrifleg skýrsla eða munnleg svo að hér geti farið fram ítarlegar og efnislegar umræður um málið á grundvelli þeirra upplýsinga sem hæstv. sjútvrh. vill leggja fyrir þingið og þjóðina. Umræður verða einnig að fara fram á grundvelli ítarlegra lýsinga hæstv. ráðherra á

því hvert er verkefni og hlutverk nefndarinnar og hvernig yfirlýsingar annars af tveimur formönnum nefndarinnar koma heim og saman við það sem nefndin á að gera eða hvort það er rétt sem hæstv. sjútvrh. gaf hér til kynna að formaður nefndarinnar væri bara að tala fyrir sjálfan sig og ekki í takt við það sem nefndinni væri ætlað að gera.
    Það er auðvitað ekki hægt fyrir okkur að skilja svo við málefni sjávarútvegsins að umræðunni ljúki með þeim hætti sem hér hefur orðið. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri til að beina því til hæstv. sjútvrh. að hann undirbúi sérstaka skýrslu til Alþingis um málið. Ég er ekki að biðja um svar við því hér og nú, bið hann bara að hugleiða það næstu daga. Á grundvelli þeirrar skýrslu geti farið fram í næstu viku, í síðasta lagi þar næstu viku, ítarleg umræða um stöðu sjávarútvegsins og hugsanlegar aðgerðir sem þarf að grípa til í málefnum hans.