Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:28:00 (4329)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég var ekki að víkja mér undan því að svara fyrirspurnum hv. þingmanna um málefni sjávarútvegsins eða taka þátt í umræðum um málefni sjávarútvegsins hér í þinginu. Þvert á móti. Ég hef svarað skilmerkilega fyrirspurnum sem hafa verið bornar fram á grundvelli þingskapa og tekið þátt í umræðum um málefni sjávarútvegs undir öllum dagskrárliðum sem hér hafa verið í vetur um málefni sjávarútvegsins. Fullyrðingar af þessu tagi eru því algjörlega út í hött. Ég var á hinn bóginn að benda hv. þm. Alþb. á að þeir yrðu að fara að þingsköpum þegar þeir bæru fyrirspurnir sínar fram og kæmu skoðunum sínum á framfæri í þinginu. Hv. 8. þm. Reykn. fór upp í ræðustól til að ræða almennt um málefni sjávarútvegsins og bera fram fyrirspurn til ráðherra sem ekki gat á nokkurn hátt flokkast undir það að vera athugasemd um gæslu þingskapa. Ég var að gera athugasemd við þetta og benda hv. þm. Alþb. á að fylgja eftir þingsköpum. Ég hef vakið á því athygli að það hefði verið eðlilegt að koma fyrirspurn af því tagi sem hér var til umræðu fram undir athugasemd þegar fyrirspurn hv. 5. þm. Suðurl. var til umræðu. Það er alkunna og á að vera hv. þm. kunnugt að fyrirspurnatíminn er mjög knappur. Fyrirspyrjandi og ráðherra hafa mjög knappan tíma til fyrirspurna og andsvara og aðrir þingmenn enn knappari tíma til að gera örstuttar athugasemdir. Ef fram koma í máli fyrirspyrjanda, ráðherra eða annarra sem tala í slíkri umræðu, efnislegar yfirlýsingar sem einstökum þingmönnum þykir nauðsynlegt að taka til umræðu þá á vitaskuld að gera það á grundvelli þingskapa, annaðhvort með nýrri fyrirspurn, beiðni um skýrslu eða fyrirspurn í dagskrármáli þar sem slík fyrirspurn á eðlilega heima. En ekki að misnota ákvæði þingskapa um að menn geti kvatt sér hljóðs um gæslu þeirra til að koma efnislegum athugasemdum á framfæri eða slíkum beiðnum um skýrslu sem menn eiga að gera með öðrum hætti. Það eru þessar athugasemdir sem ég var að koma á framfæri og óska eftir að hv. þm. Alþb. héldu sig að þingsköpum en gengju ekki á svig við þau.