Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 17:07:00 (4415)

    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja umræðu um þetta frv. mikið sem mér skilst að hafi staðið hér áður þegar ég var fjarri. Þessi dagur er búinn að vera dálítið viðburðarríkur. Við ræddum jöfnun á olíu eða ójöfnuð á olíu sem er í vændum hjá ríkisstjórninni og svo þegar líður að kvöldi höfum við uppi gamanmál og ræðum um furðulega frumvarpssmíð um friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum öðrum en hvölum. Nú ætla ég ekkert að gera lítið úr því að setja lög og reglur. Ég held að það sé mjög mikilvægt, bæði um vernd dýra, friðun og hvernig þau skuli nýtt. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Enn fremur reglur um hvernig veiðimönnum beri að fara að. Ég held að það sé mjög mikilvægt að taka á ýmsu í þeim efnum því að ég þekki það úr mínu kjördæmi að gálausir byssumenn fara frjálslega í auðlindinni og skilja eftir sig margt óskemmtilegt.
    Ég tek undir það að gagnvart vissum fuglum getur verið mikilvægt að þeir eigi sér friðhelgi og fái friðuð svæði, bæði hvað rjúpuna varðar og ekki síður endurnar. Ég tek undir ræðu hv. síðasta ræðumanns að því leyti að ég held að það miði mjög að mikilli miðstýringu þar sem hreinlega er gerð tilraun til þess að taka eignarréttinn af mönnum og færa hann til ráðuneytis í Reykjavík. Skotleyfi ráðherra mundi í hverju tilfelli verða úthlutað mönnum með korti. Þetta eru lög og reglur sem ég get ekki sætt mig við. Almennar reglur þurfa að vera fyrir hendi en þeir sem eiga auðlindina og bera ábyrgð á henni eiga auðvitað að vernda hana og verja og sjá um að hún sé skynsamlega nýtt. Það er mikilvægt í mínum huga. Um það hefur verið bærileg samstaða á milli dreifbýlisins og þéttbýlisins og menn þurfa í þessu tilfelli ekki á nýjum millilið að halda sem heitir umhvrh. Hér er auðvitað bara verið að búa til einn millilið í málinu sem heitir umhverfisráðherra Íslands sem útdeilir kortum, útdeilir veiðisvæðum o.s.frv. og þarf auðvitað heilan her af mönnum til þess að halda utan um þetta. Ég vil því biðja menn að skoða þetta frv. vel út frá ákvæðum um eignarrétt, að menn gangi þar ekki í berhögg við stjórnarskrána.
    Ég sagði að frv. væri furðuleg smíð. Auðvitað sé ég að gamansamir menn hafa samið frv., það er enginn vafi, því að það eina sem á að vera frjálst í auðlindinni er veiði á músum og rottum. Ég hef aldrei heyrt talað um mýs og rottur sem nytjar, en það er mikið gert úr því hér í einum tveimur þremur greinum, að þar séu allir menn frjálsir að veiðiskap.
    Eins sýnist mér þær greinar, sem snúa að minknum, kannski varhugaverðar gagnvart fuglalífi. Ég held að mjög mikilvægt sé að minkurinn verði ekki friðaður í landinu því að slíkur skaðvaldur hefur hann verið í fuglalífi landsmanna og veiðilöndum að þar þarf nú frekar að herða róðurinn en slaka á.
    Ég sagðist ekki ætla að lengja umræðuna. Ég er eiginlega sannfærður um það að þingið lætur það ekki gerast að svona frv. fari óbreytt í gegn og ég veit að hæstv. umhvrh. ætlast til þess eins að málið fái þinglega meðferð, verði sent út til umsagnar og þeir auðsýnilegu agnúar, sem svo margir hafa bent hér á, verði sniðnir af frv. og við náum því kannski á þessu þingi að semja ný lög og samþykkja sem miða fyrst og fremst að því að veiðimenn gangi skynsamlega um og auka fremur ábyrgð á þá sem bera ábyrgð á landinu. Ég held að það mikilvæga sé að auka ábyrgð þeirra en færa ekki alla hluti til miðstýringarvaldsins í Reykjavík eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.