Sinubrennur

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 18:43:00 (4435)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frv. við 1. umr. Ég á sæti í umhvn. sem fær þetta mál til meðferðar. En mig langar til að segja hér við 1. umr. að ég get tekið undir flest ef ekki allt sem stendur í frv. og verð að lýsa ánægju minni með það og þau ákvæði sem þar eru. Ég get tekið undir það sem kemur fram í grg. að á undanförnum árum hafa orðið miklir skógarbrunar, bæði í nánd við Reykjavík og víðar, þar sem farið hefur verið óvarlega með eld. Einnig stafar dýralífi og öðru hætta af brennum. Það þarf að fara mjög varlega og get ég tekið undir það sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns að slíkt á að vera algjör undantekning.
    Það fór samt svo þegar ég fór að bera frv. saman við núgildandi lög að mér varð hugsað til þess að kannski væru þau lög ekki svo slæm. Ef farið væri eftir þeim væri kannski ekki þörf á miklum lagabreytingum. Mér fannst svolítið sérkennilega að því staðið að semja alveg nýtt lagafrv. og geta svo lítið um í grg. og annars staðar hvernig ákvæðin væru í núgildandi lögum. Auðvitað gat ég kynnt mér þau sem ég og gerði. Ég komst þá að því að kannski er höfuðbreytingin sú að nú á að banna sinubrennur en áður voru þær heimilaðar með mjög ströngum ákvæðum. Í 4. gr. núgildandi laga stendur skýrt að leita skuli leyfis hreppstjóra áður en sinubrenna er framkvæmd. Það þarf því leyfi samkvæmt núgildandi lögum til þess að brenna sinu. Hér hafa tveir hv. alþm. játað að hafa brotið lögin með því að brenna sinu án þess að biðja um leyfi og eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson sagði þá taldi hann að ómögulegt væri að þurfa að biðja um leyfi til að brenna sinu á landi sínu. Samkvæmt núgildandi lögum þarf hann samt að gera það. Ég get ekki séð betur. (Gripið fram í.) Fyrirgefðu, ég tek það til baka, það var hv. 3. þm. Norðurl. e., Valgerður Sverrisdóttir, sem lýsti því yfir að hún hefði brennt sinu. Hins vegar lýsti hinn þingmaðurinn því yfir að það væri ómögulegt að þurfa að biðja um leyfi til að fá að brenna sinu og væntanlega hefur hann þá gert það hingað til, en telur að það sé of umhendis að þurfa að standa í því.
    Samkvæmt núgildandi lögum er bannað að brenna sinu innan kaupstaða og kauptúna eða í þéttbýli. Í grg. með þessu frv. segir að með nýrri lagasetningu og markvissri framkvæmd lagaákvæða í kjölfar hennar um allt land ætti að vera hægt að hafa hemil á brennufaraldri. Þá er fyrst og fremst verið að tala um brennufaraldur í Reykjavík og það er einnig vandamál utan Reykjavíkur. Ég á mjög erfitt með að sjá að nokkuð í frv. uppfylli það, sem ég hefði þó gjarnan viljað sjá að með þessari lagasetningu, að möguleiki væri á markvissari framkvæmd. Mér þætti mjög gott að fá að vita það hér við 1. umr. í hverju hún væri fyrst og fremst fólgin, þ.e. hver væru helstu frávikin, því í báðum tilvikum er bótaábyrgð á tjóni sem hlýst af sinubruna. Annars vegar í 5. gr. frv. og hins vegar í 9. gr. laganna er talað um það og á ég frekar erfitt með að sjá að frv., ef að lögum verður, muni endilega verða svo mikið til bóta, því miður. Ég hefði talið að það hefði auðvitað mátt gera einhverjar bætur á þeim lögum sem nú eru í gildi í stað þess að flytja nýtt frv., sérstaklega ef það verður til þess að þingmenn stjórnarliðsins hafi fyrirvara á að samþykkja frv. Ég vona að það sé ekki mjög almennt en þó lýsti hv. þm. Pálmi Jónsson því yfir að það væri ekki bara hann heldur fleiri þingmenn í Sjálfstfl. sem hefðu slíkan fyrirvara, ef ég skildi hann rétt. Mér þykir það slæmt ef veikja á þau ákvæði sem hér eru inni því ég tel að frekar eigi að herða þau ef eitthvað er.
    Ég tel að það skipti kannski ekki öllu máli þótt við setjum inn í lögin einhver frekari ákvæði um hvaða skilyrðum eigi að fullnægja til að fá leyfi til sinubrennu. Í 2. gr. er talað um hvenær slík leyfi á að veita: Ef ekki stafar almannahætta af brunanum, ekki hætta á eyðingu náttúruminja, lyngs, trjágróðurs, mannvirkja o.s.frv. Ég taldi og tel enn eðlilegt að ráðherra geti útfært það nánar í reglugerð en það má, mér að meinalausu, setja inn í lög ákvæði sem skýra betur hvenær leyfi skuli veitt ef það er ekki þá til að takmarka það að hægt sé að taka á málinu.
    Þetta vil ég segja, virðulegur forseti, hér við 1. umr. en almennt vil ég segja að ég tel að það þurfi að taka á þessum málum og hvort sem þetta frv. verður að lögum eða ekki þá þurfi að herða mjög eftirlit með sinubrennum. Ef við verðum svo óheppin að frv. verði ekki að lögum held ég að umhvrn. ætti að ganga eftir því að farið sé eftir núgildandi lögum.