Umferðarlög

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 21:00:00 (4437)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. allshn. á þskj. 570 við 60. mál, frv. til laga um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, á þskj. 536. Allshn. kom saman á milli 2. og 3. umr. og ákvað nefndin að koma með brtt. við frv. sem hljóðar svo:
    ,,Við 3. gr. Við 1. efnismgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þess skal gætt að einhver stjórnarmanna hafi þekkingu á sviði ökukennslu.``
    Á fund nefndarinnar voru boðaðir til viðtals fulltrúar ökukennara þeir Guðbrandur Bogason, Arnaldur Árnason og Snorri Bjarnason þar sem ökukennarar eru að sjálfsögðu úr þeim hópi sem hefur sérþekkingu á umferðarkennslu en frv. það sem hér er rætt um felur það einmitt í sér að umsjón með ökunámi, eftirlit með ökukennslu og ökupróf færist til Umferðarráðs. Auk þess voru boðaðir til fundar við nefndina Guðmundur Ágústsson, formaður Umferðarráðs, og Ari Edwald, aðstoðarmaður dómsmrh.
    Að þessum viðræðum loknum ákvað nefndin að koma með brtt. til að undirstrika enn frekar álit nefndarmanna allshn. að nauðsynlegt sé að gæta faglegra sjónarmiða við ökukennslu við þá skipulagsbreytingu sem frv. gerir ráð fyrir.