Umferðarlög

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 21:10:00 (4440)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það reyndist svo í ljósi þess fundar sem haldinn var í morgun að nauðsynlegt var að ræða málið betur í nefndinni. Í raun er ég þeirrar skoðunar að málið hafi ekki verið útrætt. En ég geri mér grein fyrir því að lengra verður ekki komist. Við því er ekkert að segja. Það er ásetningur meiri hluta nefndarinnar að ljúka málinu hið fyrsta og ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, sem er óbreytt frá því sem var við 2. umr. málsins, að ég er verulega ósáttur við það að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa framfylgt umferðarlögum sem kveða á um endurskoðun laganna fyrir árslok 1991. Okkur er tjáð að sú endurskoðun fari nú fram í ráðuneytinu en hefði átt að vinna á síðasta ári og ljúka með framlagningu frv. á haustþingi. Hæstv. ráðherra valdi þá leið að taka út tvo afmarkaða efnisþætti, annars vegar að breyta yfirstjórn Umferðarráðs og breyta því í stofnun með það að markmiði að leggja niður aðra stofnun og sameina Umferðarráði og hins vegar að færa ákveðinn málaflokk, ökukennslu og ökupróf, til Umferðarráðs.
    Þetta eru hvort tveggja atriði sem má ræða og ég útiloka ekki að að þessar breytingar geti verið skynsamlegar. En ég tel afar erfitt að taka afstöðu til þeirra einna sér án þess að hafa fyrir framan mig annars vegar heildarendurskoðun laganna og hins vegar þá reglugerð sem samkvæmt umferðarlögum á að setja um ökukennslu og ökupróf. Sú reglugerð hefur ekki enn verið sett þótt lögin séu frá 1989, ef ég man rétt. Ég hygg að ég muni það rétt að stuðst sé við reglugerð sem gefin var út fyrir ævalöngu og litið svo á að sé í gildi.
    Ég hef hins vegar haft þann lagalega skilning, sem kannski er misskilningur, að ég tel að reglugerðir geti ekki verið í gildi nema því aðeins að lög sem þær styðjast við séu enn í gildi. Ég á afar erfitt með að skilja að reglugerð geti verið eldri en lögin sem hún á stoð í. En hvað um það. Óskað hafði verið eftir því á fundinum í morgun að fá upplýsingar um það á hvern veg hæstv. ráðherra hygðist breyta reglugerðinni þannig að við fengjum upplýsingar um hvernig taka ætti á þessum málaflokki faglega. Það hlýtur að vera sá grundvöllur sem við verðum að hafa þegar við reynum að meta breytingar af því tagi sem lagt er til í frv., hvort þær séu til betri vegar eða ekki. Ég vil því gagnrýna meðferð málsins eins og ég gerði við 2. umr. og hefur gagnrýni mín ekkert breyst frá fyrri umfjöllun.
    Varðandi þá brtt. sem lögð var fram í dag og ég vissi reyndar ekki um fyrr en ég sá henni útbýtt, vil ég þó segja að hún færir vissulega frv., með áorðnum breytingum, til betri vegar. Ég tel rétt að brtt. nái fram að ganga, þó svo hún gangi mun skemur en ég hefði kosið. Ég tel að t.d. hefði verið nauðsynlegt að hafa í texta á þskj. 570 það ákvæði að einhver stjórnarmanna hafi sérþekkingu á sviði ökukennslu, það nægi ekki að hafa þekkingu á því sviði heldur sérþekkingu. Ef grannt er skoðað, hugsa ég að býsna margir hafi þekkingu á ökukennslu. Ég hugsa jafnvel að ég gæti sagt að ég hefði þó nokkra þekkingu á þeim málum og flestir gætu látið hið sama hvarfla að sér. Mér finnst viðbótin í raun og veru ansi rúm og ef efnisinntakið á fram að ganga verður það að byggjast á góðum vilja hæstv. ráðherra.
    Virðulegi forseti. Ég held að ástæðulaust sé að fara út í frekari umfjöllun um frv. og breytingar á því. Ég hef þegar látið það koma fram sem mér þótti nauðsynlegt.