Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 21:45:00 (4446)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Norðurl. v. fyrir að flytja þessa þáltill. Full ástæða er til þess að draga málefni iðnaðarins til umræðu hér í hv. Alþingi. Ég tel að verulegar umræður þurfi að fara fram um íslenskan iðnað og þær hljóti að fara fram í ljósi fyrirætlana stjórnvalda um að tengja Ísland við alþjóðleg markaðssvæði enn betur og meira en orðið er. Menn þurfa að hugsa ýmislegt upp á nýtt, samkeppnin verður miklu harðari og virkari en hún hefur verið. Hún verður sjálfsagt á fleiri sviðum og erfiðara verður að verja það sem fyrir er. En ég tel reyndar að það þurfi að huga að miklu fleiru. Ég tel að ekki síst þurfi að huga nú um stundir að því að reyna að breyta hugarfarinu í landinu, að mynda meiri kjark og áræði hjá fólki sem hugsanlega hefði áhuga á að stofna fyrirtæki og brydda upp á nýjungum í framleiðslu og annað eftir því. Ég held að nú sé ákveðinn vandi á ferðinni sem tengist hugarfarinu. T.d. eru ekki margir sem leggja út í stofnun nýrra fyrirtækja og miklu færri en áður. Það er einfaldlega vegna þess að fólk óttast afdrif sín í þeim rekstri sem það hefur áhuga á að fara út í. Mikið hefur verið um gjaldþrot, mikið hefur verið um það að fyrirtæki hafi farið á hausinn eins og sagt er, í iðnaði og alls kyns þjónustu. Finna þarf leiðir til að styðja við nýgræðinginn til að fólk fái kjarkinn og finni að staðið er við bakið á því ef það vill ráðast í að koma hugmyndum sínum á framfæri. Þetta held ég að sé eitt af stærri vandamálunum í sambandi við ný fyrirtæki og nýjar atvinnugreinar. Ég held að vinna þurfi að þessu í gegnum skólakerfið og að stjórnvöld þurfi að horfast í augu við það að þau þurfa líka að styðja við þetta með fjárframlögum. Það þarf að vera hægt að veita styrki eða stuðning við stofnun nýrra fyrirtækja. Þetta þurfa ekki endilega að vera styrkir, það getur verið hlutafé. Sveitarfélög hafa t.d. lagt fé í ný fyrirtæki. Vel kann að vera að það sé leiðin að sveitarfélögin geri það tímabundið. Ég er ekki að tala um atvinnurekstur á vegum sveitarfélaganna til frambúðar, en það hefur sýnt sig að það þarf þetta blóð, það þarf þennan stuðning til að ýta af stað fólki sem hefur áhuga. Það verður að finna fyrir honum.
    Það er svolítið sérkennilegt að heyra hæstv. iðnrh. lýsa því yfir að hann sé að safna upplýsingum um þessi mál. Hann hlýtur að vera búinn að safna miklum upplýsingum því að hann hefur setið í stól iðnrh. í nokkurn tíma og hann dró það í efa að nefndarstarf skilaði endilega miklum árangri. Það er sjálfsagt upp og ofan en undir styrkri stjórn sem fylgir eftir því sem nefndir starfa við má búast við árangri. Ég staðnæmdist við eitt sem hann sagði áðan, það var að stjórnvöld hefðu verið upptekin af fortíðarvanda. Við höfum orðið vör við það að nokkru leyti, en ég býst við að hann hafi átt við eitthvað annað en þann fortíðarvanda sem hefur verið í umræðum í Alþingi í vetur, hann hafi átt við einhvern annars konar fortíðarvanda heldur en þann. Ég tel að hann þurfi þá að takast á við þennan fortíðarvanda vegna þess að hann á nú einu sinni að vera frumkvöðull og forustumaður í íslenskum iðnaði og við þurfum að eiga von á því að hæstv. iðnrh., hver sem hann er á hverjum tíma, gangi fremstur í flokki við það að reyna að lyfta upp atvinnulífinu á Íslandi og að finna leiðir og benda á úrræði til þess að auka og hvetja til framleiðslu til nýrra atvinnuskapandi tækifæra í landinu. Á þetta hefur skort, menn hafa einblínt á stóru lausnina, menn einblíndu á álver og þegar sá draumur varð ekki að veruleika, þá var ekkert eftir.
    Það er því miður ekki margt að gerast, það er því miður ekki margt sem vekur bjartsýni þessa dagana um það að hér sé að fara af stað einhvers konar ný framleiðsla eða ný atvinnutækifæri að skapast í iðnaði. Það er því miður ekki þannig og þess vegna er það að vonum að menn flytji till. til þál. um að nefnd verði skipuð til þess að reyna að benda á nýjar leiðir. Ég hvet menn til þess að taka jákvætt á því frumkvæði sem kemur fram í formi þessarar þáltill. og þakka fyrir að hún er flutt.