Kolbeinsey

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:42:00 (4464)

     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon ):
    Herra forseti. Ég get gjarnan byrjað mál mitt á því að taka undir að það væri mjög æskilegt að a.m.k. tveir hæstv. ráðherrar væru viðstaddir umræður um till. sem ég tel nokkuð mikilsverða, þ.e. annars vegar hæstv. samgrh. og hins vegar hæstv. dómsmrh. sem fer með málefni landhelginnar og gæslu hennar. En það er að sjálfsögðu ekki mitt að passa upp á viðveru þeirra í þingsalnum. ( Forseti: Hæstv. samgrh. hefur veikindaleyfi í dag.) Já, þá er það upplýst. En hæstv. dómsmrh. var hér í dag að ég best sá, í gervi hæstv. sjútvrh. að vísu. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það, m.a. af þeim sökum að till. hefur satt best að segja legið alllengi fyrir þinginu og beðið þess að komast til umræðu. Maður gerist seinþreyttur á að bíða eftir því að komast að til að mæla fyrir slíkum tillögum þannig að þær komist til nefndar og geti fengið umfjöllun þar. Af tvennu illu er sennilega betra að þær séu ræddar án viðveru viðkomandi ráðherra heldur en að bíða eftir því enn um sinn að það megi allt saman falla saman að þeir séu viðstaddir og hægt sé að ræða tillögurnar á skikkanlegum tíma.
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um styrkingu Kolbeinseyjar. Flm. ásamt mér eru hv. alþm. úr öllum flokkum, hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason, hv. 11. þm. Reykn. Rannveig Guðmundsdóttir, hv. 9. þm. Reykn. Anna Ólafsdóttir Björnsson og hv. 6. þm. Norðurl. e. Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera svo fljótt sem við verður komið áætlun um styrkingu Kolbeinseyjar. Í þessu skyni verði lokið úrvinnslu gagna sem aflað var við eyjuna 1989 og 1990 og frekari rannsóknir framkvæmdar næsta sumar reynist þeirra þörf.
    Síðan verði unnin áætlun um varanlega styrkingu eyjarinnar þannig að hún fái sem lengst staðist ofan sjávar. Áætlunin skal einnig taka mið af hagnýtingu eyjarinnar í öryggis- og vísindaskyni, svo sem með uppsetningu sjálfvirkrar veðurathugunarstöðvar og jarðfræði- og haffræðirannsóknum. Áætlunin skal unnin í samráði við viðkomandi nefndir Alþingis og lögð fyrir þingið til staðfestingar fyrir árslok 1992.``

    Ljóst er, herra forseti, að Kolbeinsey, þessi útvörður Íslands og íslenskrar auðlindalögsögu í norðri, á mjög í vök að verjast sökum ágangs sjávar, hafíss og veðra. Með lauslegum samanburði við heimildir frá fyrri öldum sést glöggt, ef treysta má þeim heimildum, að gengið hefur mjög á eyjuna og hún nálgast óðum að teljast fremur sker í úthafinu en verðskulda sitt glæsilega nafn. Um sögu eyjarinnar má vísa til fylgiskjala með tillögunni og ætla ég þess vegna ekki tímans vegna að fara lengra út í þá sálma. Þó er ljóst að miðað við heimildir frá miðöldum, sem nokkrar eru til, hefur gengið mjög á eyjuna þannig að hún er núna nánast brot af þeirri stærð sem hún hefur sennilega haft mesta á sögulegum tíma.
    Um þýðingu Kolbeinseyjar þarf í sjálfu sér ekki að fara í grafgötur. Það er alveg augljóst mál að Kolbeinsey sem grunnlínupunktur við afmörkun íslensku landhelginnar hefur úrslitaþýðingu um allstórt hafsvæði norður og austur af eyjunni. Það nægir að nefna að ef alls engin hefði verið Kolbeinseyjan, hefði flatarmál íslensku efnahagslögsögunnar orðið um 9.400 km 2 minna við útfærsluna í 200 mílur. Til þess að gefa mönnum hugmynd um hvaða hafflæmi er þarna á ferð, má geta þess að heildarflatarmál þriggja sjómílna landhelginnar við Ísland voru 25.000 km 2 á sínum tíma. Hér er þannig á ferðinni hafsvæði sem svarar til drjúgs hluta af allri þriggja mílna landhelgi Íslendinga eins og hún var þá. Um stöðu Kolbeinseyjar og þýðingu hennar í þessu sambandi vísast til laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979. Varðandi líklega stöðu þessara mála samkvæmt alþjóðarétti er nærtækast að benda á ákvæði hafréttarsáttmálans þó að vísu sé það enn svo, því miður, að hann hefur ekki öðlast staðfestingu þar sem nógu mörg ríki hafa ekki fullgilt samninginn. Það er auðvitað alvörumál fyrir okkur Íslendinga að enn skuli sú staða vera uppi að nokkur ríki vanti í hópinn til þess að tilskilinn fjöldi sjálfstæðra ríkja hafi fullgilt sáttmálann. Og ástæða er til að minna hv. alþm. á þetta því að gjarnan má hafa þetta á dagskrá og í huga í samskiptum okkar við aðrar þjóðir, að halda fram hér eftir sem hingað til því sjónarmiði okkar Íslendinga að brýna nauðsyn beri til að tilskilinn fjöldi þjóða fullgildi hafréttarsáttmálann. Enginn vafi er þó á að sem slíkur gefur hann vísbendingu um það sem líklega verður í þessum efnum og er jafnframt að langmestu leyti í samræmi við gildandi alþjóðarétt. Þar með má ætla að það megi styðjast við viðkomandi ákvæði í hafréttarsáttmálanum til þess spá fyrir um réttarstöðu okkar og þýðingu þess að Kolbeinsey haldist ofan sjávar varðandi afmörkun íslensku landhelginnar. Í grófum dráttum eru þau ákvæði á þá leið að hætta er á því að eyjan hverfi sem grunnlínupunktur þegar hún breytist samkvæmt skilgreiningu úr eyju sem er ofan sjávar í flæðisker. Að vísu vil ég taka það fram að að sjálfsögðu mundum við Íslendingar reyna til hins ýtrasta að standa á okkar rétti þó svo færi, en um það hversu mjög réttarstaða okkar veikist í því tilviki þarf ekki að deila.
    Rétt og skylt er að geta þess, herra forseti, að málefnum Kolbeinseyjar hefur áður verið hreyft á Alþingi og hafa margir alþingismenn sýnt skilning á því hversu mikilvægt mál varðveisla eyjarinnar er. Þann 20. apríl 1982 samþykkti Alþingi þáltill. þar sem ríkisstjórninni var falið að sjá um að sjómerki yrðu sett upp á eyjunni og athuga með varðveislu hennar. Má segja að í framhaldinu hafi komist nokkur hreyfing á þessi mál og ber þar hæst söfnun upplýsinga, svo sem með för þeirra Sigurðar Sigurðarsonar og Kristjáns Sæmundssonar til Kolbeinseyjar í ágúst 1985. Síðan var því miður lítið aðhafst fyrr en sumarið 1989. Það ár var ráðist í rannsóknir og nokkrar framkvæmdir í eyjunni og var veitt sérstök fjárveiting til þessa verkefnis á fjárlögum. Alls munu um 5,5 millj. kr. hafa farið til byggingar þyrlulendingarpalls með innbyggðum sjómerkjum á eyjunni auk rannsókna á þessum tíma. Vita- og hafnamálastofnun annaðist verkið og naut við það aðstoðar Landhelgisgæslunnar.
    Sumarið 1990 var unnið áfram að athugunum við eyjuna og var þá jarðfræði eyjarinnar könnuð, m.a. með köfun, auk þess sem sjómælingar fóru fram á grunnunum í kringum eyjuna.
    Það var ætlun þeirra sem þá stjórnuðu verkum að áfram yrði unnið úr þessum athugunum og í framhaldi af því teknar ákvarðanir um næstu skref. Sú verklagsáætlun hafði verði mótuð í samgrn. á þessum tíma. Því miður mun það vera svo að málið er svipað statt í dag og frá því var horfið sumarið 1990. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum til þessa verkefnis í þeim fjárlögum sem nýverið hafa verið samþykkt og er því ljóst að til sérstakra ráðstafana þarf að grípa ef ekki á að koma algert uppihald í framkvæmdir á þessu sviði.
    Það er álit okkar flutningsmanna að tímabært sé að Alþingi sjálft taki af skarið og lýsi yfir vilja sínum í þessu efni. Sá vilji á að okkar mati að vera, að allt verði gert sem innan viðráðanlegra marka getur talist til að styrkja Kolbeinsey og rétt sé að fela framkvæmdarvaldinu að hafa forgöngu um mótun áætlunar í þessu skyni.
    Ég tel, herra forseti, að það sé nánast skylda okkar og hverrar kynslóðar á hverjum tíma að gera nánast allt sem hugsast getur til þess að gæta landsréttinda þjóðarinnar og tryggja að komandi kynslóðir búi áfram við sem ýtrust réttindi til lands og sjávar eins og við njótum eða hugsanlegt er. Ég tel að það flokkist beinlínis undir allra stærstu vanrækslusyndir ef menn láta sitt eftir liggja í slíkum efnum og glata eða afsala sér með einhverjum hætti þeim landréttindum og réttindum til nýtingar auðlinda og gæslu þeirra sem þjóðin getur frekast og ýtrast átt á grundvelli alþjóðaréttar. Þess vegna er það brýnt að allt verði gert sem hægt er til þess að afstýra því og í versta falli að tefja að Kolbeinsey breyti þannig um eðli samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum að hún hætti að teljast eyja og þar með grunnlínupunktur og verði að flæðiskeri eða hverfi með öllu.
    Í því sambandi er einnig ljóst að það styrkir mjög stöðu okkar ef í eyjunni, þó svo fari að hún

hverfi síðar, komi upp einhver starfsemi og einhver mannvirki sem flokkast sem slík og geta öðlast viðurkenningu af því tagi sem slík geta gert. Þannig mun það t.d. vera staðreynd að Norðmenn hafi nýtt sér búsetu og þá starfsemi sem veðurathugunarstöð á Jan Mayen hefur verið þeim eða a.m.k. haldið því fram fullum fetum að með því að búseta hafi verið varanleg þar styrktist réttarstaða þeirra á grundvelli eyjarinnar. Mannvirki, vísindastarfsemi og rannsóknartæki geta þjónað vissum sambærilegum tilgangi. Af þeim sökum og eins af hagnýtingarástæðum tel ég sjálfsagt að reyna að nýta eyjuna eins og kostur er í því skyni. Það er t.d. ljóst að sjálfvirk veðurathugunarstöð sem með nútímatækni er tiltölulega auðviðráðanlegt að koma fyrir og nægjanlegt væri að vitja einu sinni á ári gæti sent bæði hitastig, jafnvel ölduhæð og a.m.k. vindhraða og aðrar slíkar nauðsynlegustu upplýsingar til lands og væri það eitt og sér heilmikið atriði og varðaði öryggi sæfarenda og möguleika til sjósóknar á þessu svæði.
    Þegar maður skoðar tölur um það hvernig gengið hefur á stærð eyjarinnar á undanförnum áratugum og öldum kann það að virðast næsta óviðráðanlegt verkefni að reisa þarna rönd við. Það er vonandi alls ekki svo. Ég bendi mönnum á að í fylgiskjölum með tillögunni eru athyglisverðar hugmyndir sem Árni Hjartarson jarðfræðingur setur fram um hugsanlegar aðgerðir til þess að styrkja eyjuna. Þær felast annars vegar í að beita tækni sem þekkt er við gerð mannvirkja í tengslum við virkjanir þegar berg er styrkt og þétt með svokallaðri grautun og sömuleiðis möguleikana á að verja yfirborð eyjarinnar og sökkul með grjóti eða dolosum. Tímans vegna hef ég ekki tök á því að fara nánar út í þá hluti en þó væri áhugavert að ræða aðeins betur og meira um jarðfræði eyjarinnar og mögulegar aðgerðir til að styrkja hana. Þar er fyrst og fremst um tæknilegt úrlausnarefni að ræða sem menn hljóta að taka ákvarðanir um þegar lokið er nauðsynlegum rannsóknum til þess að undirbyggja slíka ákvarðanatöku.
    Herra forseti. Ég tel að það sé með öllu óviðunandi að hvert árið á fætur öðru líði án þess að tekið sé á þessu máli. Það væri meiri háttar vanræksla að mínu mati og mér er það vel ljóst eftir að hafa heimsótt eyjuna og skoðað hana nokkuð vel og lesið vel þau gögn sem liggja til grundvallar málinu að þarna gætu óvæntir og illir atburðir gerst skyndilega, á þessum vetri eða þeim hinum næsta t.d. þegar erfiður hafísagangur yrði í veginum. Hún er ekki orðin meiri bógur en svo að slíkt gæti gerst tiltölulega mjög skyndilega og enginn er kominn til með að segja að eyjan heflaðist ekki í burtu jafnvel á einum erfiðum ísavetri ef illa tækist til. Hins vegar er alveg ljóst að ýmislegt má gera og í öllu falli er skylt að reyna að hindra að svo fari og tefja það. Má vel leiða að því lyktum að hver sá áratugur sem Kolbeinsey helst ofan sjávar geti skilað íslenska þjóðarbúinu miklum verðmætum. T.d. er ljóst að a.m.k. einn, kannski tveir stórir nytjastofnar ganga um og eru talsvert á því svæði sem Kolbeinsey færir inn fyrir íslensku efnahagslögsöguna. Þar á ég við bæði loðnu og síðan norsk-íslenska síldarstofninn ef hann hæfi göngur sínar hingað á nýjan leik, sem vonandi verður.
    Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er senn lokið og vil því að lokum leggja það til að till. verði vísað til hv. samgn. Það er að sjálfsögðu álitamál undir hverja málefni dómsmála heyra og þar með talin landhelgin, hvort samgn. eða allshn. eigi að fá till. Með vísan til þess að framkvæmdaþáttur þessa máls hefur verið og á að mínu mati áfram að vera á verksviði samgn., heyra undir samgrn. og Vita- og hafnamálastofnun og með vísan til þess að landbrotsmálefni eru sömuleiðis vistuð í því ráðuneyti og þær aðgerðir sem hér þyrftu til að koma yrðu væntanlega einna skyldust þeim viðfangsefnum, þá leyfi ég mér að leggja til að að lokinni umræðunni verði till. vísað til hv. samgn.