Kolbeinsey

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:58:00 (4465)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú þakka þá till. sem hér er flutt. Ég er mikill áhugamaður um varðveislu Kolbeinseyjar og var m.a. flm. um till. um þetta mál árið 1982 sem þá var samþykkt. Vissulega hefur miðað ótrúlega hægt í því að hrinda þessu þarfa máli lengra fram á við þó búið sé að gera þar ákveðna hluti sem ber að virða.
    Ég fann að því áðan þegar umræðan hófst að hæstv. núv. samgrh. skyldi ekki vera viðstaddur því svo sannarlega hefði borið vel í veiði að geta talað við bæði hæstv. núv. samgrh. og hv. flm. till. sem er fyrrv. samgrh. þannig að ég hefði getað leitt þá aðeins saman og þeir borið saman bækur sínar í þessu þýðingarmikla máli. En það er nú nokkuð liðið kvölds og ég ætla þess vegna ekki að tala mikið út af því. Það gefst tækifæri til þess að fara aðeins meira yfir sviðið þegar málið kemur frá nefnd. ( Forseti: Forseti vill taka það fram, hv. þm., að hæstv. samgrh. hefur veikindaleyfi.) Ég veit, það hafði þegar komið fram, þess vegna tala ég svo mildilega um það að hann sé fjarverandi.
    Ég held að það sé rétt sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími Sigfússyni að nauðsynlegt er að vilji Alþingis liggi alveg skýr fyrir í þessu máli, hvað Alþingi vilji gera. Ég tel að vilji Alþingis liggi fyrir í málinu. En það sakar ekki að fá það traust og álit endurnýjað. Það væri þá bara af hinu góða að gera slíkt. Till. sem flutt var um 1982 fékk mjög góðar viðtökur í þinginu þó framkvæmdir hafi vissulega dregist vegna þess að menn áttuðu sig kannski ekki á því hvað við vorum að tala um þýðingarmikið mál. Þess vegna drógust framkvæmdir óeðlilega lengi.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á það hversu nauðsynleg veðurathugunarstöð væri. Það var nú eitt af því sem ég lagði hvað þyngsta áherslu á. Það var einmitt að koma upp á eyjunni einhvers konar mannvirkjum til þess að tryggja réttarstöðu okkar, til þess að geta varið það að um grunnlínupunkt

væri að ræða sem við gætum síðan notað til þess að stækka landhelgi okkar. Nú er komið þarna mannvirki. Búið er að byggja þyrlupallinn. Ég hef aldrei skilið það hvers vegna veðurathugunarstöð hefur ekki verið sett upp þarna. Ég hef spurt menn sem ég tel að hafi vit á því og þeir tjáð mér að mjög lítið fyrirtæki sé að setja slíkt upp. Slík tæki séu víða uppi á öræfum landsins og um sjálfvirkar merkjasendingar sé að ræða. Nú veit ég ekki hvort það er nægjanlegt þarna norður í hafi en alla vega tek ég undir það með hv. þm. að það er gríðarlega mikið mál að þarna verði sett upp veðurathugunarstöð. Það er mikið mál fyrir sjófarendur. Menn eru mikið að veiðum þarna t.d. loðnusjómenn og af viðtölum mínum við menn norður í Grímsey í sumar veit ég að það mundi breyta miklu fyrir þá ef veðurlýsingar bærust frá þessu hafsvæði og það á ábyggilega við um fleiri.
    Eitt er það sem ég rekst ekki á í till. hv. þm. um styrkingu Kolbeinseyjar nú, sem er að mörgu leyti mjög ítarleg og gott innlegg í umræðuna, prýðilega vel unnin og hinir hæfustu menn hafa verið kallaðir til, en það eru rannsóknir Þjóðverjanna, hvort ekki hafi verið leitað eftir þeim. Nú komu Þjóðverjar hingað og voru með ákveðna rannsóknastarfsemi úti við Kolbeinsey. Ég hefði gaman af að spyrja hv. þm. og fyrrv. ráðherra hvort hann gæti frætt okkur eitthvað um það mál og hvort íslensk stjórnvöld eða þeir sem sáu um framkvæmdaþáttinn hefðu ekki leitað eftir því hvaða niðurstöður lágu fyrir hjá Þjóðverjunum. Þeir voru ekki hvað síst að huga að hinum mikla jarðhita eða gasi sem menn töldu að væru í næsta nágrenni eyjarinnar. Þeir vildu skoða það mjög gaumgæfilega í kafbát sem þeir voru með og vildu koma með mikið og stórt rannsóknaskip til þessa verks. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um þetta.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að geyma mér að tala meira um þetta mál þangað til það kemur til síðari umr. vegna þess að hæstv. samgrh. er ekki í salnum.