Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:28:00 (4490)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Örfá orð í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Austurl. Hann sagði í sinni ræðu að ég hefði haldið því fram að það væri tímabært að tengja gengi krónunnar við ECU. Það hef ég ekki sagt. Þvert á móti sagði ég, með leyfi virðulegs forseta, í 1. umr. um seðlabankalagafrv. sem rætt var hér næst á undan og ég vitna til ræðu minnar við 1. umr. um það mál:
    ,,Samhliða því sem ríkisstjórnin staðfesti áframhaldandi stefnu stöðugleika í gengi ákvað hún að tenging krónunnar við ECU væri ekki tímabær að sinni. Til þess skorti ýmsar nauðsynlegar forsendur. Til þess að undirbúa jarðveginn var ákveðið að hrinda skyldi

í framkvæmd ýmsum breytingum í gengis-, gjaldeyris- og peningamálum . . .  Það er fyrst og fremst um það að ræða að grípa til aðgerða til að auka markaðsáhrif á daglegt gengi krónunnar og efla möguleika Seðlabankans til þess að hafa áhrif á gengið með almennum aðgerðum . . .  ``
    Það frv. sem við ræðum hér og nú er einmitt eitt af þeim málum sem hrinda þarf í framkvæmd til þess að undirbúa jarðveginn. Ég þakka hv. 1. þm. Austurl. stuðninginn við málið. Og ég hvet þingmenn til þess að vera ekkert að tvínóna við það að veita brautargengi þeirri stefnu frjálsræðis í gjaldeyrisviðskiptum sem þeir eru hér að játa með vörunum en koma svo aftur og aftur í stólinn til þess að segja að þeir vilji ekki styðja af einhverjum ástæðum sem ég botna hreint ekkert í.