Ferðaþjónusta

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 10:41:00 (4517)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft nokkuð þýðingarmiklu máli og ég vil þakka bæði fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir þeirra framlag til málsins. En í framhaldi af því sem fram kom hjá hv. 1. þm. Vesturl. er rétt að minna á það að á vorþingi 1991, fyrir síðustu alþingiskosningar, lágu fyrir þingi tvö mál, í öðru þeirra var mörkuð ferðamálastefna.

Það frv. hafði farið í gegnum neðri deild og verið samþykkt m.a. af sjálfstæðismönnum. Afdrif þess frv., þar sem menn ætluðu sér að marka stefnu, urðu þau að málið var drepið í efri deild af einum þingmanni Sjálfstfl. Ég hygg að hæstv. samgrh. kannist nokkuð við það mál.