Fjarskiptaeftirlitið

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:13:00 (4532)

     Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir hans svör sem voru á margan hátt mjög fróðleg. Það kom fram í svörum hæstv. ráðherra að þarna eru mjög aukin umsvif þeirrar starfsemi sem áður heyrði undir deild Pósts og síma. Þjónustugjöld þeirra sem skipta við stofnunina munu eiga að standa undir kostnaði að einhverju leyti og ráðherra fortekur ekki að slík gjöld muni hækka. Ég á erfitt með að skilja að á þessum niðurskurðar- og sparnaðartímum sé brýn nauðsyn á því að koma á sérstakri stofnun til þess að sjá um þessi mál þó svo stóru þjóðirnar í kringum okkur geti leyft sér það. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra mun endurskoðun á fjarskiptalögunum koma til umræðu á næstunni. Þá mun Fjarskiptaeftirlitið líklega verða tekið fyrir í sambandi við það og þá verður fróðlegt fyrir hv. þm. að fylgjast með því máli.