Afgreiðsla lagafrumvarpa í tengslum við EES-samninginn

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 13:03:00 (4583)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég þakka forseta fyrir að gefa hér skýringu á hinum undarlegu ummælum sem hún var borin fyrir í þeirri fundargerð sem hér var til umræðu í gær. Ég get ekki látið hjá líða að segja frá því að mér brá mjög þegar ég sá þetta skýrum stöfum haft eftir hæstv. forseta í fundargerðinni. En það er komið í ljós að fundargerðin er röng og það er vel um það að forseti komi leiðréttingum á framfæri, bæði hér fyrst við þingið, og fyrst og fremst við þingið, og við þá sem fundargerðina settu saman.

    Það breytir hins vegar ekki því að okkur er mjög mikilvægt að reyna að koma því á hreint hvernig staðið verður að vinnu vegna alls skipulags þingstarfa í sumar. Ég geri ráð fyrir því að Evrópudómstóllinn komi ekki til með að gera athugasemdir við það uppkast sem nú liggur fyrir. Samkvæmt þeim fréttum sem ég hef haldbestar að utan þá telja menn sig hafa nokkra vissu fyrir því að ekki komi til athugasemda af hálfu Evrópudómstólsins við það uppkast sem hann nú hefur í höndum. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að um þetta mál þarf að fjalla hér á Alþingi. Okkur vantar tæmandi skrá yfir þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru áður en af hugsanlegri fullgildingu yrði og sú skrá hlýtur að hafa verið unnin eða vera í vinnslu. Ég vil fara fram á að okkur þingmönnum verði afhent hún hið fyrsta. Þó er kannski lykilatriðið sem ekki verður undan skotist að taka á, þ.e. athugun á hinni stjórnarskrárlegu hlið málsins. Og ég vil minna á þáltill. sem liggur hér fyrir og er ekki, að því er ég best veit, búið að mæla fyrir enn þá en er ákaflega áríðandi að sé hið fyrsta skref í málinu, þ.e. að gerð verði á því úttekt, traust úttekt, hvort hér þurfi að koma til breyting á stjórnarskránni. Og ef svo er, sem ég óttast, þá þarf að sjálfsögðu að ganga að því verki ef ríkisstjórnin á annað borð ætlar eða vill beita sér fyrir fullgildingu þessa samnings. Hún verður að undirbúa þær breytingar á stjórnarskránni sem nauðsynlegar kunna að verða og efna til kosninga. Það er atriði sem ætti að vera næsta skref í málinu ef ríkisstjórnin heldur á annað borð fast við að keyra málið áfram eins og ráðherrar hafa gefið til kynna.
    Þetta vil ég að komi hér fram og jafnframt fara þess á leit við hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því að umrædd tillaga verði tekin á dagskrá hið fyrsta og hljóti afgreiðslu í þinginu svo að þessi athugun geti farið fram og öll tvímæli tekin af. Það var athugað á fyrri stigum málsins hvort hér væri sneitt að stjórnarskránni og menn greindi á um það. Færustu lögspekinga okkar greindi á um það hvort stjórnarskrárbreyting væri nauðsynleg. Fram komu sterk rök frá okkar virtustu sérfræðingum sem hnigu að því að svo kynni að fara að hér þyrfti að koma til stjórnarskrárbreyting.
    Ég vil, frú forseti, að lokum láta í ljósi þá skoðun að hafi verið ástæða til þess við hið fyrra uppkast að óttast að um stjórnarskrárbrot kynni að vera eða að stjórnarskrá þyrfti að breyta, þá eru miklu sterkari líkur til að þess þurfi nú eftir hinu nýrra uppkasti þar sem réttur Evrópubandalagsins er miklu betur tryggður en í fyrra uppkastinu.