Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 17:26:00 (4621)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að Atlantshafsbandalagið hafi barist gegn herforingjastjórninni í Tyrklandi eða Þingmannasamband NATO hafi verið sá vettvangur þar sem þingmenn lýðræðisríkjanna börðust gegn herforingjastjórninni í Tyrklandi. Það vill svo til að ég þekki það mjög vel að það var Evrópuráðið og þing Evrópuráðsins sem var aðalvettvangur baráttu þingmanna á Vesturlöndum gegn herforingjastjórninni í Tyrklandi. Það væri nauðsynlegt fyrir hv. þm. að lesa sér dálítið til til að hann áttaði sig á því hvar menn hafa staðið vörð gegn herforingjastjórnunum. Innan NATO voru á Spáni, Portúgal, Grikklandi og Tyrklandi herforingjastjórnir, gerræðisstjórnir sem fangelsuðu þingmenn, ráku þá í útlegð, bönnuðu blöð, heftu skoðanafrelsi með margvíslegum

hætti og hv. þm. Björn Bjarnason getur t.d. á næstnæsta þingmannafundi Evrópuráðsins rætt þar persónulega við marga þingmenn sem voru settir í útlegð, bannað að starfa og skrifa í blöð á blómaárum lífs síns vegna þess að herforingjastjórnirnar í heimalandi þeirra, aðildarríki NATO, Spáni, Portúgal eða Grikklandi ógnuðu öllu frelsi þeirra og lýðræði. Þetta eru einfaldar staðreyndir.
    Það er líka nokkuð ljóst að það var ekki hernaðarógnin frá NATO sem steypti gerræðiskerfi kommúnismans í Austur-Evrópu. Það voru innri mótsagnir þessa gerræðiskerfis, ófrelsið sem það hafði í för með sér, efnahagslegu mistökin, falskenningar um eðli framfara, barátta gegn lýðræði og mannréttindum hjá þeim sem þarna stjórnuðu sem gerði það að verkum að þessi ríki á endanum steyptu gerræðiskerfi kommúnismans sem þar var við völd. Aftur á móti hagnýtti KGB og valdaklíkan í Kreml sér eins og hún gat hernaðarógnina frá NATO til þess að halda völdum yfir fólkinu og kúga það ár eftir ár.