Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:01:00 (4640)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil í örstuttu máli gera grein fyrir afstöðu fulltrúa okkar framsóknarmanna í heilbr.- og trn. í sambandi við frv. til laga um breytingar á lögum um Lyfjatæknaskóla Íslands, um lög um sjúkraliða og lög um Ljósmæðraskóla Íslands.
    Við teljum, þrátt fyrir að við höfum skrifað undir með fyrirvara, að frv. sé ágætt og beri að samþykkja það hér á Alþingi. Ég vil rökstyðja það þannig að í sambandi við Ljósmæðraskóla Íslands þá er frv. beint framhald af því sem hefur verið að gerast. Ljósmæðranám er í beinu framhaldi af háskólanámi á hjúkrunarbraut við Háskóla Íslands. Í sambandi við sjúkraliðana tel ég þetta vera eins og hverja aðra lagatiltekt. Sjúkraliðanám er núna í fjölbrautaskólakerfinu. Það sem stóð aftur á móti í okkur var í sambandi við Lyfjatæknaskóla Íslands. Við vildum skoða betur hvort rétt væri að gera það nám að fjölbrautaskólanámi fyrst það kom fram nokkuð hörð gagnrýni á það frá Lyfjatæknafélagi Íslands. Þeir töldu það rangt að því leyti að stúdentsprófs þyrfti að krefjast sem undirbúningsmenntunar undir þetta nám og að mjög ungir nemendur mundu útskrifast frá Lyfjatæknaskólanum ef þetta færi svona óbreytt.
    Við fulltrúar Framsfl. teljum að þetta sé alveg sambærilegt við nám í Sjúkraliðaskóla Íslands og því sé ekki nein ástæða til að hafa sérskóla. Við munum því standa að og styðja frv.