Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:20:00 (4645)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Austurl. sagði að það hefði hljómað mjög undarlega í sínum eyrum að heyra fyrirvara minn við það frv. sem er til umfjöllunar vegna þess að þetta væri á skjön við þá stefnumörkun sem hér hefði farið fram. Það kann vel að vera að fyrirvari minn, sem var afskaplega almenns eðlis og eins og ég sagði kannski öðru fremur til þess fallinn að vekja ákveðnar hugleiðingar meðal þingmanna, sé annars eðlis en þær skoðanir sem hafa verið látnar í ljós að undanförnu og sú stefna sem hefur verið mörkuð. Ég er ný á Alþingi og ég hef ákveðnar skoðanir um málið, sem ég tel eðlilegt að setja fram, og ég sé ekkert undarlegt við skoðanir mínar.
    Hvað varðar umfjöllun um starfsmenntun í atvinnulífinu og hvort hún eigi heima í menntmrn. eða félmrn. þá talaði að vísu einn fulltrúi Kvennalistans fyrir því á Alþingi í umræðum að hún yrði í menntmrn. en það er ekki í sjálfu sér pólitísk stefnumörkun Kvennalistans í því máli. Við erum 63 hér inni og við getum haft mismunandi skoðanir á málum sem eru ekki flokkspólitísk í grundvallaratriðum þannig að ég held að nú megi bara þúsund blóm blómstra og við skulum hafa sem flestar skoðanir uppi í þessari umræðu.