Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:24:00 (4647)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér heyrist í þessari umræðu ein fjöður vera orðin að tíu hænum ef það sem ég sagði hér og þeir fyrirvarar sem ég sló eru orðnir þess eðlis að ég beri ekki lengur mjúku málin eða mjúku gildin fyrir brjósti. Ég gat ekki séð að málflutningur minn væri á þann veg að það gæfi tilefni til þeirrar niðurstöðu, hv. þm.
    Hvað varðar frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu þá er það ekki enn komið úr nefnd og ég held að það ætti bara að spyrja að leikslokum og taka þá umræðu þegar þar að kemur og sjá hver niðurstaða okkar verður, mín og annarra kvennalistakvenna. Þó að það kunni að vera fjölskrúðug flóra í þeim jurtagarði þá hef ég haldið að það væri kostur en ekki löstur.