Stuðningur við fyrirvara Íslands við GATT-samninginn

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:03:00 (4683)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að þingið viti með hvaða hætti íslenska ríkið kynnti niðurstöðu um fyrirvara íslensku ríkisstjórnarinnar. Og ég hygg að það hafi verið allbærileg samstaða um þá niðurstöður sem ríkisstjórnin komst að. Ríkisstjórnin hefur einnig rætt sjónarmið sín við fulltrúa Norðurlandanna og leitast við að ná samstöðu við þau um þá þætti sem þar koma fram. Þar eru sjónarmiðin að vísu örlítið mismunandi, getum við sagt. Ég tel hins vegar mikilvægt að við eigum gott samstarf við þessi ríki, ekki síst Norðmenn, í þessum efnum.
    Á þessu augnabliki get ég ekki sagt til um það hvernig hægt er að meta möguleika á því að þessir fyrirvarar séu í höfn. Það er flóknara mál en svo og ég tel að ekki yrði gagn af vangaveltum af minni hálfu um það efni hér og nú. Á hinn bóginn er enginn vafi á að heilmikil óvissa er um almennt GATT-samningana og menn hafa ekki enn séð með hvaða hætti hægt verður að höggva á þann hnút. Sumir binda mestar vonir við að á fundum æðstu manna Bandaríkjanna annars vegar og Evrópu hins vegar verði hægt að höggva á hnútinn því að hann virðist vera illleysanlegur. Hv. þm., ég get því miður ekki svarað þessu efnislega óundirbúninn með öðrum hætti en þessum.