Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:51:00 (4705)

     Guðjón Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið nokkuð rætt um frv. það sem hæstv. sjútvrh. flutti á þingi í haust sem heimilar erlendum veiðiskipum að landa afla og sækja þjónustu í íslenskum höfnum og falla þar með úr gildi 70 ára gömul lög frá 1922. Þegar hæstv. sjútvrh. flutti þetta mál var um það að því mér virtist nokkuð almenn samstaða hér í þinginu, menn fögnuðu þessu frv. Það er löngu tímabært að taka á þessu máli. Það hefur reyndar verið reynt hér á undanförnum þingum en málið hefur yfirleitt strandað í annarri hvorri þingdeildinni í gamla þinginu. En núna hefur þetta frv. haft nokkuð greiða leið í gegnum þingið. Að vísu gerðist það í meðferð hv. sjútvn., sem ég tel nú óheillaspor, að hún gerði breytingar á frv. sem mér finnst að dragi mjög úr gildi þess. En það breytir ekki því að þetta frv. hefur nú farið í gegnum 2. umr. og er u.þ.b. að verða að lögum, væntanlega næstu daga. Nú liggur fyrir að ákveðið fyrirtæki í Vestmannaeyjum hefur áhuga á að fara að vinna eftir þessum lögum og reyndar fleiri fyrirtæki sem mér er kunnugt um vítt um landið. Þá rísa menn upp á þingi og vilja fresta samþykkt þessa frv. Mér finnst að menn séu að blanda þarna saman óskyldum málum, samþykkt þessa frv. og veiðum fyrir utan landhelgi Kanadamanna. Menn eru að blanda þarna saman óskyldum málum. Hæstv. sjútvrh. hefur gert grein fyrir þeirri stuðningsyfirlýsingu sem hann sendi Kanadamönnum. En það breytir engu um það að fiskur sem veiddur er utan landhelgi Kanada er frjáls söluvara og ef við kaupum hann ekki þá kaupir hann einhver annar. Það er hárrétt sem hæstv. 1. þm. Vestf. sagði áðan að okkur vantar meiri fisk til vinnslu á Íslandi. Við eigum að kaupa hann þar sem hann býðst. Ég tek undir það og mér finnst ástæðulaust og ég vara við því að menn fari að fresta þessu frv. hæstv. sjútvrh. þó ég telji reyndar að frv. hafi verið að miklu leyti eyðilagt í meðförum hv. sjútvn.