Vistfræðileg þróun landbúnaðar á Íslandi

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 16:21:00 (4714)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja nokkur orð til að lýsa yfir stuðningi mínum við þá tillögu sem hér er flutt. Að vísu er sá galli á gjöf Njarðar að þessi till. er hugsuð sem stuðningur fyrir undirbúning Íslands fyrir umhverfisráðstefnuna í Ríó de Janeiro sem hefst nú innan þriggja mánaða eða svo. Því er ljóst að gangur þingmála í vetur veldur því að þessi till. kemur svo seint á dagskrá en hún hefði auðvitað þurft að vera rædd fyrir langalöngu ef hún hefði átt að nýtast sem undirbúningur fyrir umhverfisráðstefnuna. Það breytir ekki því að hér er mjög þörf tillaga á ferð. Ekki eingöngu er mikil þörf á því að kanna hvernig íslenskur landbúnaður uppfyllir þær kröfur sem verður að gera til hans vegna verndunar umhverfisins heldur lít ég svo á að úttekt eins og hér er lagt til að gerð verði geti haft mjög mikið upplýsingagildi fyrir bændur sjálfa og orðið til þess að aðstoða þá og sýna þeim hvernig þeir geta gripið inn í málin.
    Sérstök ástæða er til að fagna því hve Íslendingar eru nú að vakna í þessum málum. Þar má nefna sem dæmi þær mörgu ráðstefnur sem haldnar hafa verið að undanförnu og snerta umhverfismál. Ekki síst verður mér hugsað til þeirrar ráðstefnu sem hv. 6. þm. Norðurl. e. nefndi hér og haldin var á Húsavík sl. laugardag. Sú ráðstefna var afar upplýsandi og merkileg að því leyti að svo virðist sem mjög breið samstaða sé að nást um það að ná til baka þeim landgæðum sem hafa tapast þó að menn greini nokkuð á um orsakir.
    En ég vil aðeins ítreka stuðning minn við þessa till. og ég vona svo sannarlega að hún fái skjóta og góða meðferð í nefnd. Ég reikna með að hún heyri undir okkur í landbn. og þar munum við svo sannarlega ýta á eftir henni.