Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 17:38:00 (4719)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka 1. flm. fyrir það frumkvæði að leggja frv. fram. Hér er um það að ræða að Íslendingar eigi ákveðið frumkvæði í þessum málum, setji lög sem varða kjarnorkuvopn, kjarnorkuknúin skip, eiturefnavopn og sýklavopn. Hér er verið að setja löggjöf um vopn og kjarnorku. Ég tel það afar mikilvægt að við reynum að horfa á málin í heild og minnumst þess að enn er mjög langt í land hvað þessi mál varðar þó að margt hafi gerst hér á undanförnum árum.
    Við vorum minnt á það í morgun að kjarnorkan er í fullri notkun víða um Evrópu, þar á meðal í Austur-Evrópu þar sem eru illa búin kjarnorkuver. Ég vil ekki binda þetta mál eingöngu við kjarnorkuvopn og efna- og eiturvopn heldur minnast þess að það er kjarnorkan sem slík sem er vandamálið. Það er mín skoðun að algerlega eigi að banna notkun kjarnorku. Hún er öllu lífi svo hættuleg að við megum ekki leyfa notkun hennar.
    Við minnumst þess líklega flest að umræðan um kjarnorkuvopn hófst af krafti upp úr 1983 þó að ýmsir sérfræðingar hafi fjallað um þessi mál frá því að fyrsta kjarnorkusprengjan var sprengd. Þetta varð ekki að almennu umræðuefni fyrr en íbúar Evrópu og Bandaríkjanna fóru að átta sig á því hve gífurlegt kapphlaup var í gangi, hve gífurlegar fjárhæðir fóru til framleiðslu kjarnavopna og hve sú þróun var hættuleg öllu lífi á jörðinni. Við höfum séð gífurlegan árangur á umliðnum árum en það breytir ekki því að við stöndum frammi fyrir mjög miklum vandamálum hvað þetta varðar.
    Fregnir berast af því að hinum nýfrjálsu ríkjum Austur-Evrópu, og þá einkum þeim sem tilheyra hinum fyrrverandi Sovétríkjum, gangi illa að ná samkomulagi um hvað þau eigi að gera við vopn sem þau sitja uppi með. Ég óttast að leiðtogar Rússlands muni fylgja í fótspor Sovétríkjanna fyrrverandi og halda áfram þeirri vopna- og vígbúnaðarþróun sem þar hefur verið í gangi, svo framarlega að hún sé ekki takmörkuð af alþjóðasamningum. Það er t.d. að gerast núna að Rússar eru að flytja kjarnorkutilraunastöð sína frá Kasakstan til Novaja Semlja. Frændur okkar Norðmenn fylgjast mjög grannt með þeim málum og hafa komið á framfæri mótmælum og þetta er að mínum dómi mál sem við þurfum að fylgjast mjög vel með. Rússar eru enn þá með sínar bækistöðvar í Múrmansk og á Kólaskaga. Það er langt í frá að þarna hafi orðið svo miklar breytingar að það tryggi okkur á einhvern hátt gegn umferð skipa með kjarnorkuvopn, umferð kjarnorkuknúinna farartækja eða kafbáta með langdrægar eldflaugar.
    Af þessu dreg ég þá ályktun að löngu sé tímabært að setja lög hér á landi um þessi efni. Eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni hafa ráðherrar í gegnum árin gefið út ýmsar yfirlýsingar sem vissulega hafa verið fagnaðarefni en þær taka alls ekki af öll tvímæli. Það kann að reynast erfitt að framkvæma eftirlit í þessum efnum, sérstaklega hvað varðar kafbáta, það er alveg rétt hjá síðasta ræðumanni. En við höfum ýmis hlustunartæki og kapla sem liggja hér milli landa og það er hægt að fylgjast með ferðum kafbáta. Síðan eru til mjög nákvæmar skrár yfir kjarnorkuknúin skip og skip sem geta borið kjarnorkuvopn og það var einmitt verið að spyrja um það í vetur hve mörg slík skip hefðu komið inn í íslenska lögsögu. En vissulega þarf að koma upp ákveðnu kerfi til að fylgjast með þessu. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugsað sérstaklega út í þennan þátt en auðvitað þarf að gera það.
    Einn kafli er í þessu frv. sem síðasti ræðumaður gerði ekki að sérstöku umræðuefni, en hann varðar eiturefna- og sýklavopn. Ég hlustaði á fyrirlestur sérfræðings síðasta sumar um þessi efni og það er svo því miður að framleiðsla bæði eiturefnavopna og sýklavopna er mjög auðveld. Það er erfitt að fylgjast með henni, það er erfitt að skilgreina hvað eru efnavopn og sýklavopn og þar af leiðandi er þetta afar erfitt vandamál við að glíma. Í gildi er bann við notkun eiturefnavopna en eins og við vitum hefur því ekki verið framfylgt. Ég á erfitt með að trúa því að einhverjir einstaklingar hér færu út í það að framleiða eiturefna- eða sýklavopn en þó veit maður aldrei. En það er ósköp einfaldlega rétt að kveða á um þetta í lögum vegna þess hve auðveld þessi vopn eru í framleiðslu.
    Að mínu dómi erum við ekki aðeins að fjalla um mál sem snerta afvopnun heldur er þetta auðvitað meiri háttar náttúruverndarmál. Það hefur komið fram að við Íslendingar höfum sem betur fer verið að beita okkur mjög fyrir banni við losun eiturefna og reyna að koma í veg fyrir megun hafsins. En fréttir hafa borist af því nýlega að á undirbúningsfundum fyrir umhverfisráðstefnuna í Ríó de Janeiro, undirbúningsfundum sem nú standa yfir í New York, er tekið ákaflega dræmt undir tillögur um bann sem varðar mengun hafsins. Hverjir standa þar fremstir í flokki og vilja helst engar reglur hvað þetta varðar nema Bandaríkjamenn. Bandaríkjamenn eru mjög tregir í taumi hvað varðar þessi mál og það er einfaldlega svo að þeim er illa treystandi í þessum málum. Þó að síðasti ræðumaður beri mikið traust til þeirra, þá gildir það ekki þegar náttúruverndarmál eru annars vegar.
    Að mínum dómi er hér um mikið nauðsynjamál að ræða. Hér kom fram sú skoðun að þetta mál væri að tapa gildi sínu. Ég lít svo á að hér sé ekki síst um viljayfirlýsingu að ræða. Það kom margoft fram þegar umræðan um kjarnorkuvopnalaus svæði var í hámarki að það væri gersamlega óframkvæmanlegt að fylgja því máli eftir en hér er um það að ræða að þjóðin lýsi yfir vilja sínum í þessum efnum og eigi þar ákveðið frumkvæði.
    Hér hefur mikið verið rætt um Nýsjálendinga sem vöktu heimsathygli á sínum tíma þegar þeir bönnuðu komur kjarnorkuknúinna skipa og skipa sem báru kjarnorkuvopn til Nýja-Sjálands. Þeir voru heldur betur teknir í bakaríið og fengu að gjalda fyrir. Ef ég man rétt greindi almenning og stjórnvöld nokkuð á í því máli og það kostaði mikla baráttu á Nýja-Sjálandi að koma þessu í gegn. En það er komin ný stjórn á Nýja-Sjálandi og hún er mjög skyld þeirri stjórn sem hér situr og hefur m.a. gert miklar breytingar á velferðarkerfinu. Ég hef áður vitnað til greinar sem ég las í Dagens Nyheter en þar var talað um að verið væri að kippa Nýja-Sjálandi niður á þriðja heims plan með þeim aðgerðum sem þar eru á ferð. Það kemur ekki á óvart að sú stjórn skuli vilja breyta þeim lögum og reglum sem þar gilda varðandi kjarnorkuknúin skip.
    Við vitum að á undanförnum árum, jafnvel eftir að stórveldin hófu sínar samningaviðræður, hefur gífurleg hernaðaruppbygging átt sér stað á norðurslóðum og hún hverfur auðvitað ekki á stundinni. Það tekur langan tíma að breyta hernaðaráætlunum og þó að mikill niðurskurður eigi sér stað bæði í Bandaríkjunum og væntanlega í Rússlandi í kjölfar þeirra efnahagsörðugleika sem þar eru, þá er samt mikið enn um ferðir skipa hér í hafinu, kafbáta m.a., sem erfitt er að fylgjast með. Málið snýst ósköp einfaldlega um að gera öðrum þjóðum það ljóst að við viljum ekki þessi skip innan okkar lögsögu þó að það kunni að reynast okkur erfitt að tryggja að slíkar reglur séu virtar.
    Enn einn atburður sem undirstrikar þörf slíkrar löggjafar eru þær fréttir sem við höfum fengið af losun eiturefna í norðanvert Atlantshaf þar sem í hlut áttu Austur-Þjóðverjar. Því miður er ég hrædd um að slíkir atburðir hafi gerst oftar en í þau skipti sem þeir voru á ferð. Ég tengi þetta saman, losun eiturefna sem í því tilviki voru eiturefnavopn. Þetta er allt saman nátengt og snýst um það, eins og ég hef áður nefnt, að við lýsum yfir vilja okkar í þessum efnum og setjum lög hvað þetta varðar.
    Við þurfum að horfa til lengri tíma. Okkur hættir til að vera mjög bjartsýn í þessum málum núna vegna hinna miklu breytinga sem eiga sér stað í Evrópu. Ef við horfum lengra aftur í tímann sjáum við að miklar sveiflur hafa orðið í þessum málum. Mikil hernaðaruppbygging hefur átt sér stað en á allra síðustu árum hefur verið samdráttur. Það sem er kannski hvað alvarlegast er að margar þjóðir eru í startholunum. Ýmsar þjóðir dreymir greinilega um að framleiða kjarnorkuvopn og komast í hóp kjarnorkuveldanna hvað sem öllum umræðum, samningum og allri vitneskju sem við höfum um afleiðingar kjarnorkuvopna líður. Það er ekki síst í því samhengi sem það mundi væntanlega vekja athygli ef við lýstum því yfir að við vildum ekkert slíkt í landi okkar. Í Rússlandi og í Sovétríkjunum fyrrverandi er mikið af sérfræðingum á þessu sviði sem menn hafa miklar áhyggjur af og óttast að verði keyptir til ýmissa ríkja þar sem verið er að spá í framleiðslu á kjarnorkuvopnum. Þannig að það er langt í frá að við séum gulltryggð í þessum efnum. Þó nágrannar okkar, bæði í vestri og austri, séu helst á ferð um höfin í kringum landið er aldrei að vita hvenær aðrir færu að flækjast hingað. Í það minnsta hafa stórveldin siglt um öll heimsins höf og það er ekkert sem kemur í veg fyrir að aðrir geri það líka.
    Ég held að ég hafi ekki mikið meira um þetta að segja, virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum frv. en auðvitað tökum við öllum ábendingum vel sem fram kunna að koma og sérstaklega þeim er varða framkvæmd laganna, ef frv. verður samþykkt. Hér er um mjög stórt mál að ræða og kunna að vera ýmsir agnúar á að koma því í framkvæmd. Hins vegar fagna ég því að þessi umræða eigi sér stað, að við byrjum aftur og ýtum á umræðu um þessi mál því eins og ég sagði áður, ég er nú farin að endurtaka mig nokkuð, þá eigum við enn þá mjög langt í land til þess að málin komist í viðunanlegt horf. Þau svið sem við eigum helst eftir eru þau sem kveðið er á um í frv., þ.e. bann við umferð kjarnorkuknúinna skipa og skipa sem bera kjarnorkuvopn, bann við framleiðslu eiturefna- og sýklavopna, að herða á því banni og reyna að tryggja framkvæmd þess og síðast en ekki síst að komið verði á banni við tilraunum með kjarnorkuvopn. Þetta eru þau helstu svið sem eftir er að semja um. En ég fagna allri umræðu um þetta mál.