Flutningur stofnana á vegum ríkisins út á landsbyggðina

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 10:40:00 (4757)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft nokkuð miklu máli sem stundum áður hefur verið til umræðu, bæði innan þings og utan, en það er ljóst af svörum hæstv. forsrh. að ekki er von um neinar efndir í þessa átt og sérstaklega verður það auðskilið í ljósi þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað sér sem felst m.a. í því að hún hefur falið Byggðastofnun að skilgreina það sem kallað er vaxtarsvæði á landsbyggðinni. Í þeirri skilgreiningu felst hið gagnstæða að þau svæði, sem lenda utan vaxtarsvæða, eru væntanlega dauðasvæði landsbyggðarinnar.
    Ég vil minna á fyrirheit forsrh. og yfirlýsingar um flutning á Byggðastofnun sem greinilega eru að engu orðin. Ég vil líka minna á frumvörp sem ráðherrar hafa flutt fyrr í vetur, t.d. frv. um Brunamálastofnun ríkisins þar sem áfram er gert ráð fyrir að sú stofnun verði staðsett í Reykjavík þó að það sé tiltölulega smá stofnun og afar auðvelt að flytja hana út á land hvort heldur er til Akureyrar, Ísafjarðar eða eitthvert annað.