Réttindi heimavinnandi fólks

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:01:00 (4796)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég tel mjög mikilvægt að hrista rykið af því á Alþingi öðru hverju til að minna á það réttleysi sem þessi hópur býr við sem eru heimavinnandi húsmæður. Í því sambandi er ég ekki síst að tala um konur sem eru heima yfir börnum, oft mörgum börnum eða sjúklingum.
    Félmrh. benti á mikilvæga hluti þar sem hún hefur beint ábendingum til ýmissa ráðherra. Það er auðvitað mikilvægt en það þarf aðgerðir í þessum málum. Þó að orð séu til alls fyrst, þá þarf aðgerðir, ekki síst í lífeyrismálum, hvað varðar veikindarétt og hvað varðar starfsmat á vinnumarkaði. Mig langar aðeins til þess að bæta við það sem síðasti ræðumaður kom inn á og varðar heimilisstörfin og framleiðni í heimilisstörfum vegna þess að það kemur hvergi inn í hagtölur okkar hvílík framleiðsla fer fram á heimilum landsins. Ef við reiknuðum þetta inn í þjóðarframleiðsluna er ég hrædd um að þær tölur mundu aukast gífurlega. Ef við reiknuðum þetta inn í hagvaxtartölur held ég að hagvöxtur væri mun meiri en hann sýnist í útreikningum núna. Það sem framleitt er á heimilum kemur hvergi inn í hagtölur og framleiðsla á heimilum er ekki bara framleiðsla heimavinnandi húsmæðra heldur líka húsmæðra sem vinna á vinnumarkaði og á heimilum.