Réttindi heimavinnandi fólks

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:03:00 (4797)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er af hinu góða að menn hafi komist að niðurstöðu um úrbætur sem gera þyrfti og að hæstv. félmrh. hafi beint þeim til viðkomandi fagráðherra. Þar er fyrst og fremst verið að beina ábendingum til hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbr.- og trmrh. Í vetur hafa breytingar á lögum um almannatryggingar verið nokkuð í sviðsljósinu en ég hef ekki séð að hæstv. heilbrrh. Alþfl. hafi munað eftir þessu atriði og er það miður.
    Nokkuð hefur líka verið rætt um frv. sem hæstv. fjmrh. hefur lagt fram og hef ég ekki séð bóla á því að hann hafi munað eftir þessum ábendingum og verður að segjast sem er að það eru vonbrigði, einkum og sér í lagi í sambandi við skattamálin. Eins og menn kannski muna voru sjálfstæðismenn með það mál mjög á oddinum í kosningabaráttunni á síðasta ári að heimila fulla millifærslu á persónuafslætti milli hjóna og töldu það mikið réttlætismál og héldu um það langar og margar ræður. Þegar þeir komust í þá stöðu að geta breytt orðum í efndir, varð ekkert af þeim. Og þetta er því miður sá félagsskapur sem hæstv. félmrh. hefur valið sér og telur best trúandi til þess að framfylgja réttlætismálum til úrbóta í þessum efnum.
    Ég bind þó nokkrar vonir við að sú nefnd sem hæstv. félmrh. hefur skipað ýti enn frekar við þessum málum og tek undir það sem fram hefur komið í máli síðustu ræðumanna að framleiðni í fjölskyldu er verulega mikil og vanmetin í öllum reikningum, ekki aðeins í skattalegu mati heldur í öllum þjóðhagsreikningum. Það er nú dálítið skrýtið að reikningsstofnanir séu með þær forsendur að tjón á bifreið í umferðarslysi er meiri framleiðniaukning í þjóðfélaginu en ævilangt starf húsmóður á heimili. Það er sérkennilegt mat á framlagi manna til samfélagsins. Ég bendi á að þó því sjónarmiði sé með fullum rökum og rétti haldið fram að konur eigi að taka virkan þátt í atvinnulífinu, er það engu að síður svo að þjóðfélaginu er það mjög mikilvægt að heimili eða hjón geti alið börn sín þannig upp að þau verði nýtir þjóðfélagsþegnar. Það er meira virði en margt annað.