Umhverfisfræðsla

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:34:00 (4810)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar til þess að þakka hv. þm. Kristínu Einarsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu brýna máli og einnig hæstv. menntmrh. fyrir að upplýsa um það mikla starf sem unnið hefur verið í menntmrn. til að stuðla að aukinni umhverfisfræðslu í skólum landsins. Það kom fram í máli hans að unnið hefur verið vel að þessu máli og ég treysti því að hæstv. menntmrh. haldi því starfi áfram af krafti. Þetta er mjög brýnt mál og við skulum gæta að því að skólarnir hafa náttúrlega mjög mikið frelsi og svigrúm til að leggja sitt af mörkum. Námsskráin gefur tilefni til þess og skólarnir sem slíkir bera mjög mikla ábyrgð, en það er rétt hjá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur að benda á að vel verði fylgst með að eins vel verði staðið að verki og kostur er.