Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 11:18:00 (4828)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Gagnvart því máli sem hér er á dagskrá, fríverslunarsamningi milli EFTA og Tyrklands, get ég að nokkru leyti tekið undir þau sjónarmið sem komu fram í máli síðasta ræðumanns. Ég held að við hljótum að horfa til þeirra aðstæðna sem eru í þeim löndum sem við erum að gera viðskiptasamning við. Ég veit það að hæstv. utanrrh. hefur viljað vera í fararbroddi þeirra aðila í stjórnmálum í Evrópu sem hafa gengið fram í að vernda hagsmuni minnihlutahópa og þeirra sem hafa verið beittir ofurefli og kúgun. Þess vegna fannst mér athyglisvert að hæstv. ráðherra nefndi þessar aðstæður, ef ég man rétt, ekki einu orði í sínu máli þegar hann mælti fyrir tillögunni. Það væri hollt fyrir ráðherrann að horfa til Eystrasaltsríkjanna og afskipta ráðherrans af þeim málum, þeirra jákvæðu afskipta sem ráðherrann af hafði af þróun mála þar og hæstv. ráðherra ætti að spyrja sjálfan sig þeirrar samviskuspurningar hvort ekki gæti verið að í Tyrklandi væru hliðstæðar aðstæður uppi. Það er því kannski ekkert sjálfgefið að við hrópum húrra fyrir þessum samningi.
    Í öðru lagi, virðulegi forseti, ég skal ekki taka í það langan tíma, en örfá orð um þá skýrslu sem hæstv. utanrrh. lagði hér fram á Alþingi í gær. Það er að mínu mati óhjákvæmilegt vegna þess að eftir að hæstv. ráðherra lagði þessa skýrslu fram, þá er öll umræða bæði hér á Alþingi og í þjóðfélaginu um utanríkismál í upplausn. Hér er tæpt á það miklum breytingum á okkar utanríkisstefnu að það er óhjákvæmilegt að þetta mál fari strax í umræðuna og það gerðist reyndar strax í gærkvöldi. Það sem að mínu mati er verst í þessu máli er það að hér talar hæstv. utanrrh. á þann hátt, bæði í máli sínu áðan og í því sem hann setur fram í skýrslunni, að það er ómögulegt að treysta utanríkisstefnu hæstv. núv. ríkisstjórnar. Það var þó einn af fáum hlutum í hennar stefnu þar sem menn töldu sig vita hver væri stefnan og hafa unnið samkvæmt því fram að þessu.
    Það er líka óhjákvæmilegt að við spyrjum þeirrar spurningar strax í dag: Hvert er viðhorf hæstv. forsrh. til þessarar skýrslu? Og, hæstv. utanrrh.: Var efni hennar og þau sjónarmið sem þar koma fram rædd í ríkisstjórninni? Skýrslan ber að vísu allan keim af því að geta verið umræðugrundvöllur í ríkisstjórn þar sem menn væru að fást við mál út frá nýjum sjónarhóli til þess að móta e.t.v. breytta stefnu. En að varpa þessum sjónarmiðum, ef þau eru ekki rædd í ríkisstjórninni, út í þjóðmálaumræðuna er sprengja í utanríkismálaumræðuna eins og hún er í dag og hlýtur að setja hana alla úr skorðum.
    Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að í skýrslu hans er hvergi sagt að við eigum að sækja um aðild að EB. En það er á fjölmörgum stöðum vikið að því á þann hátt að það verður ekki misskilið hver er skoðun ráðherrans og hvert hans hugur stefnir.
    Það er einnig athyglisvert að á bls. 13 er í raun kollvarpað þeim hugmyndum sem fram að þessu hafa verið uppi í umræðunni um hið Evrópska efnahagssvæði. Þar eru í raun tínd fram öll rök þeirra sem hafa sagt að umræðan um hið Evrópska efnahagssvæði sé orðin að fordyri að Evrópubandalaginu og það sé nánast útilokað að Íslendingar geti tryggt sína hagsmuni sem önnur stoðin undir tvíhliða samkomulag, þar sem í annarri stoðinni eru hinar rúmar 370 millj. íbúa Evrópu og hin stoðin séu hinir 300 þús. íbúar Íslands. Þetta er hér allt saman tíundað, að vísu allt í spurningaformi. Það eru spurningarmerki á eftir öllum setningum en í raun er þetta sett fram sem fullyrðingar. ( Forseti: Forseti vill minna hv. þm. á að þessi skýrsla verður á dagskrá á þriðjudaginn. Hún er ekki til umræðu í dag en hún verður á dagskrá á þriðjudaginn og þá fá hv. þm. tækifæri til að ræða innihald skýrslunnar.)
    Virðulegi forseti. Ég fer senn að ljúka máli mínu. En ég lét þess getið þegar ég hóf þennan þátt ræðu minnar að hér eru mál sett fram á þann hátt að þjóðfélagið bíður ekkert eftir því í hálfa viku að skýrslan sé tekin til umræðu. Það er svo einfalt. Og það mátti hæstv. ráðherra vita þegar hann lagði skýrslu sína fram.

    Að lokum, virðulegi forseti, ítreka ég þá spurningu til hæstv. utanrrh.: Erum við að fjalla hér um skýrslu --- virðulegi forseti, ég biðst afsökunar, við erum ekki að fjalla um þessa skýrslu hér þó hún blandist óbeint inn í umræður um fríverslunarsamning við Tyrkland --- en koma fram í þessari skýrslu viðhorf hæstv. ríkisstjórnar? Hefur hæstv. forsrh. tekið þá kúvendingu í stefnu sinni gagnvart Evrópumálunum á rúmri viku, ef við tökum mjög ákveðnar yfirlýsingar þá í kjölfar yfirlýsinga framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins? Hefur hæstv. forsrh. tekið þá kúvendingu í stefnu sinni eða er þetta einkaframtak hæstv. utanrrh.?