Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 12:12:00 (4839)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. hefur sagt hvað eftir annað: Á meðan ríkisstjórn Davíðs Oddssonar situr á þessu kjörtímabili er ekki á dagskrá að ræða aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur hafnað aðild Íslands að Evrópubandalaginu a.m.k. á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta hafa verið alveg skýrar yfirlýsingar hæstv. forsrh. og enn á ný treystir hæstv. utanrrh. sér ekki til að sýna þinginu að hann sé að segja það sama og hæstv. forsrh. Enda getur hann það ekki, vegna þess að á bls. 18 í skýrslunni segir hann að nú þurfi öll ráðuneyti og allar stjórnstofnanir að gera úttekt á því hvað aðild að EB hefði í för með sér og þá fyrst sé hægt að hafna henni. Vinnuregla úttektarinnar verður að gefa sér það að aðildin komi til greina. En stefnubreytingin felst í því að hæstv. forsrh. hefur sagt frá fyrsta degi ríkisstjórnarinnar: Aðild að EB kemur ekki til greina, a.m.k. ekki á þessu kjörtímabili og ekki á meðan þessi ríkisstjórn situr. Og auðvitað er það stefnubreyting, hæstv. utanrrh., að nú eigi gjörvallt Stjórnarráð Íslands að fara að vinna að því stóra verkefni að kanna aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Það er satt að segja ekki hægt að breyta verksviði Stjórnarráðsins með stærri hætti í einni svipan heldur en að segja við öll ráðuneytin og allar stjórnstofnanirnar, eins og gert er á bls. 18 í skýrslunni, að nú sé nauðsynlegt að allir þessir menn fari í þetta stóra verkefni, að kanna hvað felst í aðild Íslands að EB. Forsrh. sagði: Á valdatíma ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili verður slíkt ekki gert af því að það er ekki á dagskrá.
    Það er alveg ljóst eftir þessa umræðu í dag að hæstv. utanrrh. treystir sér ekki til þess að ræða yfirlýsingar forsrh. frá fyrsta degi ríkisstjórnarinnar til fundarins í Helsinki, en spurning þjóðarinnar í dag til Davíðs Oddssonar forsrh. og spurning þingsins til Davíðs Oddssonar forsrh. þegar hann kemur er þessi: Hvernig kemur þessi stefnubreyting hæstv. utanrrh. heim og saman við það fyrirheit sem forsrh. gaf íslensku þjóðinni?