Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 23:15:00 (4947)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og hv. 8. þm. Reykn. þakka hæstv. forsrh. fyrir yfirlýsingar hans. Ég met þær svo að hann hafni því að til greina komi þrátt fyrir það sem hefur gerst eins og hann sagði með Norðurlöndin að við Íslendingar látum á það reyna hvort við eigum að gerast aðilar að Evrópubandalaginu með því að sækja um. Hæstv. forsrh. sagði að það væri alls ekki á dagskrá.
    Hins vegar er afar skiljanlegt að hæstv. forsrh. verji utanrrh. sinn og rétt er það hjá hæstv. forsrh. að í skýrslunni má finna ýmislegt sem bendir eindregið gegn því að við eigum eða þurfum að láta á það reyna að sækja um aðild að Evrópubandalaginu eins og það sem hann las upp úr skýrslunni. En hæstv. forsrh. hefur eflaust lesið lengra og þegar ég segi að hæstv. utanrrh. sé að dáleiða sig inn í Evrópubandalagið vísa ég til þess sem hann segir þrátt fyrir þau varnaðarorð sem hæstv. forsrh. las. Hæstv. utanrrh. telur að með þeim breytingum sem hafi orðið með Maastricht-samkomulaginu komi t.d. til greina að við Íslendingar fáum undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins. Að vísu hefur t.d. sjávarútvegsráðherra Dana vísað því á bug sem fásinnu og í þeim gögnum sem á eftir fylgja má finna fjöldamörg atriði sem benda til glýjunnar sem hæstv. forsrh. ræddi um í augum hæstv. utanrrh.