Utanríkismál

114. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 00:08:00 (4953)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég viðhafði ekki þau orð að sagt væri að hæstv. utanrrh. væri ekki með réttu ráði. Ég sagði einfaldlega að ekki væri hægt að taka nægilega mikið mark á íslenska utanrrh. af því er varðar norrænt samstarf og ég tel að íslenski utanrrh. hafi enga heimild til þess, ég vænti þess að hann hafi ekki heimild til þess í ríkisstjórninni að halda því fram nánast að norrænt samstarf sé að líða undir lok. Vel getur verið að einhver hafi haldið því fram við hann að einhver gliðnun væri í norrænu samstarfi. Það eru miklar breytingar í norrænu samstarfi. En það er ekki þar með sagt að það sé að veikjast þó að breytingar séu að eiga sér stað. Ég veit ekki betur en að þetta hafi verið meginstoð í íslenskri utanríkispólitík og vænti þess að íslenski utanrrh. reyni að gera sér upp sjálfstæða skoðun í málinu en treysti ekki um of á kollega sína, hvort sem þeir heita Thorvald Stoltenberg eða Uffe Elleman-Jensen.
    Ég er ekki viss um að skoðanir danska utanríkisráðherrans eigi jafnmiklu fylgi að fagna og hæstv. íslenski utanrrh. hefur gefið í skyn. Í umræðunni sem átti sér stað á Norðurlandaráðsþingi varð ég ekki var við það. Ef eitthvað hefur verið að gerast á vettvangi Norðurlandanna hefur það frekar gengið í þá átt að menn eru mun bjartsýnni um framtíð Norðurlandasamstarfsins en þeir voru fyrir nokkrum mánuðum. Það er afar mikilvægt að íslenski utanrrh. geri sér grein fyrir því og tali í samræmi við samstarfsráðherrann og forsrh. landsins. Ég tel að hæstv. utanrrh. geri það alls ekki.