Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 21:19:00 (4968)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. talaði um það í ræðu sinni í gær að það væri ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar að sækja um aðild að Evrópubandalaginu nú. Hv. þm. Björn Bjarnason sagði í umræðu í dag um þetta efni að ekki væri enn þá á dagskrá að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir kemur hér upp og segir okkur að það eigi ekki að vera á dagskrá að sækja um aðild að Evrópubandalaginu ,,að óbreyttu``. Svo bætir þingmaðurinn við: ,,En hver getur spáð um stöðu Evrópusamvinnunnar að 5--10 árum liðnum? Umræðan á ekki að vera svart-hvít. Auðvitað fylgja kostir EES og EB.`` Þetta er þá leiðsögn fyrir íslenska þjóð hjá hv. þm. Ég hélt að vírusinn væri ekki orðinn mjög útbreiddur innan Kvennalistans en ég hef tekið eftir því að hann er í þeim garði. En að hann væri orðinn svona útbreiddur, því hef ég bara ekki gert mér grein fyrir.
    Það er alveg ljóst að hv. þm. vill fara með Þórarni V. Þórarinssyni, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, í verslunina og máta flíkina. Það er alveg dagljóst. Og hv. þm. hefur enga leiðsögn að gefa almenningi um það hvert er mat hennar á þessu, þ.e. hver eru gagnrökin. Hún segir: ,,Eins og stendur, að óbreyttu.`` En hefur þingmaðurinn ekki einhverja mynd af því í hvaða átt Evrópubandalagið er að þróast? Hefur þingmaðurinn ekki mynd af því? Hvers vegna er þingmaðurinn að segja: Það verða allir að vera galopnir fyrir þessum rökum og gagnrökum? Í hvaða andrúmslofti hrærist þingmaðurinn? Veit þingmaðurinn t.d. hvernig fjölmiðlaflóran á Íslandi matreiðir mál eða hvaða aðstöðu þeir hafa sem eru með aðvörunarorð í þessu máli til að fá fjölmiðlana til að eiga hlut í því að hlutlæg umræða eigi sér stað?
    Ég verð að lýsa svo verulegum vonbrigðum með að heyra þennan málflutning frá fólki sem ég hélt að hefði það á stefnuskrá sinni að berjast gegn því að Ísland afsali sér fullveldi sínu og gerist aðili að Evrópubandalaginu. Það er mikil raun að hlýða á þetta.