Fjöldi leiguliða og fullvirðisréttur

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:47:00 (5008)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Við höfum hlýtt á sömu ræðuna tvisvar nú, að vísu með nokkrum tilbrigðum, hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. Ég sagði í svari mínu og sé ástæðu til að endurtaka: ,,Ekki hefur farið fram nein úttekt á sölu fullvirðisréttar eftir aðilum enda eru enn nokkrir samningar frá sl. hausti ófrágengnir vegna ýmissa atriða, en það mun verða gert í lok þessa verðlagsárs þegar síðari aðlögun samkvæmt búvörusamningi lýkur.``
    Svör mín voru alveg skýr. Á hinn bóginn kostar það náttúrlega opinbert fé, tíma og fyrirhöfn ef hraða á svo viðamiklum verkum sem hér eiga í hlut. Ég hef boðið það fram að fyrirspyrjandi fái þær upplýsingar sem hann telur sig þurfa hjá ráðuneytinu og tel mig því hafa fyllilega svarað fsp. og jafnframt boðist til þess að ráðuneytið aðstoði fyrirspyrjanda til að hann geti glöggvað sig enn frekar á þessu máli.