Sala á veiðiheimildum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:59:00 (5013)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég er í hópi efasemdarmanna um gildi þessa forkaupsréttarákvæðis eða ákvæða sem eru í lögum um stjórn fiskveiða og mínar efasemdir eru að nokkru leyti sama eðlis og hv. 3. þm. Vestf. lýsti hér. Ég hef jafnframt bent á það að ég held að það sé ákaflega lítil hjálp í forkaupsréttarákvæðum fyrir þau sveitarfélög sem einmitt eru verst stödd í þessu sambandi, gjarnan komin í gjörgæslu hjá félmrn. vegna áfalla einmitt í sjávarútvegi og eru þess vegna ekki í miklum færum til að fara að keppa við stóra og fjársterka aðila um kaup á aflakvóta. Ég tel líka að þessi forkaupsréttarákvæði hafi að hluta til verið notuð sem dúsa og blekking handa mönnum til þess að sætta sig við og reyna að þola fremur ágalla núverandi kvótakefis.
    En það tekur svo auðvitað steininn úr þegar m.a. vegna túlkana sjútvrn. og úrskurða um beitingu þessara forkaupsréttarákvæða kemur í ljós að þau eru í skötulíki og eru í raun og veru ekki fyrir hendi nema í afmörkuðum tilvikum. Það tekur auðvitað steininn úr. Því til þess að þau væru nothæf ættu þau auðvitað að vera fyrir hendi.