Akstur utan vega

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:52:00 (5034)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svör hans og þó að ég verði auðvitað að lýsa óánægju minni með það að ekki hafi verið tekið á þessu máli fyrr, þá verð ég að lýsa ánægju minni með að það skuli eiga að gera það núna og vona ég að það verði gert með myndarlegri hætti en árið 1989 þegar spurt var hér síðast. Reikna ég með eftir því sem hér hefur komið fram af hálfu bæði hæstv. dómsmrh. og umhvrh. að eitthvað verði gert í málinu.
    Ég held að það sé öllum ljóst að ekki þýðir að fela þessari nefnd að vinna áfram í málinu ef hún er aldrei kölluð saman þannig að það er betra að gera eitthvað annað til að koma þessu máli áfram. Ég tel líka eðlilegt að það sé endurskoðað hvernig nefndin á að vera skipuð en í ályktun Alþingis er talað um að þar eigi að vera fulltrúar allra flokka en með nefndinni eigi að starfa fulltrúar dómsmrn., menntmrn. og samgrn. Menntmrn. var tiltekið eðlilega því að undir það féllu umhverfismálin en núna eru þau komin í sérstakt ráðuneyti sem betur fer.
    Ég get ekki tekið undir það sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að það eigi ekki að setja neinar reglur eða eins og hann orðaði það, boð og bönn. Ég talaði um reglur og lög ef á þyrfti að halda, fyrst og fremst reglur sem fólk yrði auðvitað að fara eftir. Ég tel ekki að það sé lausn að eingöngu þeir sem ferðast um hálendið skapi þær reglur vegna þess að eins og ég sagði hér frá áðan, þá eru þeir sem fara í jeppaleiðangra ekki betur að sér en það að þeir telja mönnum það til sérstakra tekna að þeir séu færir í akstri utan vega svo að ekki get ég sagt að það sé eðlilegt að við leitum til þeirra sem þannig hugsa.
    Mér hefur líka fundist mjög sérkennilegt hvernig fréttaflutningur hefur oft verið af þeim ferðum þar sem mikið er um akstur utan vega. Ég minnist þess, ég held að það hafi verið í fyrra þegar heill sjónvarpsþáttur var um ferð sem farin var þvert yfir landið á stórum jeppum og það var hrein hörmung á að horfa. Þetta þóttu alveg sérlega skemmtilegir þættir fyrir marga en mér þótti mikil hörmung á að horfa.
    Um þá ferð sem ég var að lýsa áðan, þar sem mennirnir ætluðu að sýna færni sína í akstri utan vega, ætla þeir að gera mynd. Eftir blaðinu að dæma ætti ferðin þegar að vera farin, og m.a. á að sýna þessa mynd í BBC þar sem áhersla verði lögð á undirbúning og búnað bílanna þannig að það á að kenna fólki hvernig það á að koma til Íslands og fara í ferðir með það að meginmarkmiði að aka utan vega.