Staða karla í breyttu samfélagi

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 13:10:00 (5063)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er spurt hvert sé erindisbréf nefndar um stöðu karla í breyttu samfélagi. Það var að frumkvæði Jafnréttisráðs að lagt var til í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í jafnréttismálum á sl. vori að stofnaður yrði starfshópur um stöðu karla í breyttu samfélagi. Í framhaldi af því skipaði ég í október sl. nefnd til að vinna að úttekt á stöðu karla í samfélaginu. Erindisbréf nefndarinnar er svohljóðandi:
    ,,Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnari verkaskiptingu og fjölskylduábyrgð.`` Á síðasta löggjafarþingi lagði félmrh. fram skýrslu um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Þar er m.a. lagt til að skipuð verði ofangreind nefnd. Fyrirhuguð verkefni hennar eru m.a. að vinna að úttekt á stöðu karla í breyttu samfélagi og skila skýrslu ásamt tillögum sem gætu orðið grundvöllur aðgerða. Í nefndinni eiga sæti Margrét Björnsdóttir endurmenntunarstjóri, formaður, Ari Skúlason hagfræðingur, Guðmundur Ólafsson hagfræðingur, Ingimar Ingimarsson fréttamaður, Ragnheiður Harðardóttir, fræðslufulltrúi hjá Jafnréttisráði, Sigurður Snævarr hagfræðingur, Sigurður Svavarsson ritstjóri og starfsmaður nefndarinnar er Ingibjörg Broddadóttir.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hefur ráðherra fylgst með kynningu einstakra nefndarmanna á opinberum vettvangi á viðfangsefnum nefndarinnar og viðhorfum þeirra til hlutverks hennar?`` Sumt hef ég heyrt, annað ekki. Sumu er ég sammála, sem fram hefur komið, og öðru ekki. Það er auðvitað ljóst að það er erfitt að amast við því þó að einstakir nefndarmenn láti sín persónulegu sjónarmið í ljós í jafnréttismálum. Skoðanir og málfrelsi manna ber vissulega að virða. Varðandi Guðmund Ólafsson og viðtal við hann á Bylgjunni, sem fyrirspyrjandi vitnaði hér í, vil ég segja að Guðmundur tók það sérstaklega fram að hann talaði ekki út frá sjónarhóli nefndarinnar. En ef talað er í nafni nefndarinnar eða viðhorfi hennar gegnir öðru máli.
    Spurt er: ,,Hvenær er nefndinni ætlað að ljúka störfum og hvað hefur ráðherra fyrirhugað að gera með niðurstöður hennar?`` Í skipunarbréfi nefndarmanna er þess óskað að nefndin skili af sér eigi síðar en 1. maí 1992. Nefndin hefur í hyggju að halda málþing 2. maí nk. um stöðu karla í breyttu samfélagi þar sem yfirskriftin gæti verið: Jafnrétti --- einnig fyrir karla. Jafnréttisumræðan séð út frá sjónarhóli karla. Þar er fyrirhugað að fjalla um jafnréttismálin út frá fimm meginviðfangsefnum:
    1. Breyttir tímar. Þróun fjölskyldulífs og atvinnu undanfarna áratugi.
    2. Löggöfin, framkvæmd og beiting. Löggjöf á sviði sifjaréttar og önnur lög og reglur sem hafa áhrif á þátttöku karla í fjölskyldulífi.
    3. Fjölskyldulíf og vinna. Breytt staða kynjanna í nútímaþjóðfélagi með hliðsjón af þróun og stöðu fjölskyldunnar.
    4. Athuga sérstaklega tilfinningaleg og félagsleg vandamál og athuga þau sérstaklega út frá reynslu drengja og karla.
    5. Skóla- og frítími. Athuga það sérstaklega með þarfir drengja og unglingspilta í huga.
    Fyrirlesarar á málþinginu verða beðnir um að ljúka erindum sínum með tillögum til úrbóta hver á sínu sviði. Nefndin mun síðan strax að loknu málþingi vinna skýrslu þar sem þessar niðurstöður verða hafðar til hliðsjónar og gerðar tillögur til úrbóta ef með þarf. Þess má geta hér að í Svíþjóð og Noregi störfuðu 1985 og 1986 og fram til 1991 nefndir með svipuð verkefni, þ.e. að skoða breytta stöðu karla og leggja fram tillögur er gerðu karlmönnum mögulegt að taka aukinn þátt í umönnun barna sinna og að taka aukna ábyrgð á heimilishaldi.
    Í Noregi starfaði nefndin í fimm ár. Hún kaus að starfa með þeim hætti að hennar hlutverk væri að vekja umræður um stöðu karla út frá nýjum forsendum. Konur hefðu um langt skeið skoðað sína stöðu og barist fyrir breytingum og nú væri tímabært að karlar gerðu hið sama á eigin forsendum. Norska nefndin beitti sér fyrir víðtækri umræðu í félögum, í fjölmiðlum, með ráðstefnum, rannsóknum og útgáfustarfi. Vöktu þessar umræður mikla athygli og sýndist sitt hverjum eins og eðlilegt er. Spurningin um hvað ég hyggist gera með tillögur nefndarinnar og niðurstöður fer eftir efni og eðli þeirra.