Lax- og silungsveiði

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 11:39:00 (5118)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það er auðvitað rétt athugað hjá hv. 2. þm. Suðurl. að ef Fiskræktarsjóði er ætlað að koma að fleiri málum þá hlýtur það auðvitað að takmarka möguleika hans til þess að sinna þeim sem fyrir voru með jafngóðum hætti. En það er ekki þar með sagt að heildarmarkmiðum sjóðsins verði verr sinnt en áður, það er ekki þar með sagt. Fiskræktarsjóði er auðvitað ætlað það hlutverk að stuðla að aukningu og viðhaldi íslenska laxastofnsins og það er alveg ljóst að einn mikilvægasti þátturinn í því er að friða úthöfin fyrir úthafslaxveiðum og þess vegna eðlilegt að minni hyggju að Fiskræktarsjóður komi að því máli einnig. Ég get líka svona í framhjáhlaupi getið þess að hér eru stundaðar úthafslaxveiðar undir ýmsum formerkjum við strendur landsins sem nú er í athugun hvernig sé hægt að bregðast við en þetta er okkur öllum kunnugt.
    Um hitt er það að segja að stjórn Fiskræktarsjóðs hefur lagt áherslu á að nauðsynlegt sé að setja ákveðnar og skýrari reglur um það hvernig staðið sé að innheimtu á þeim tekjum sem sjóðnum eru ætlaðar lögum samkvæmt. Það er annað tveggja að standa betur að því verki eða breyta lögunum á þann veg að viðurkenna að sjóðnum hafi ekki tekist að ná sínum tekjum og falla þá frá þeim gjöldum með breytingu á lögum í þá áttina eða hitt að styrkja möguleika Fiskræktarsjóðs til þess að sækja það sem honum er ætlað lögum samkvæmt.
    Ég er öldungis sammála hv. þm. um að nauðsynlegt er að landbn. taki þetta mál til glöggrar yfirskoðunar.