Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 15:13:00 (5150)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég er ákaflega undrandi á framgöngu hæstv. sjútvrh. hér. Í fyrsta lagi held ég að sé rétt að undirstrika það að hlutdeild sjútvn. Alþingis í endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar eða fiskveiðistefnunnar hefur orðið allt önnur en til stóð og ég held að meining Alþingis hafi verið þegar ákvæði um það voru sett inn í lög. Sjútvn. Alþingis hefur sjálf mátt grípa til aðgerða til þess að draga til sín upplýsingar og fá fundi með þeirri endurskoðunarnefnd ríkisstjórnarinnar sem sett var á laggirnar, mönnuð eingöngu af fulltrúum stjórnarflokkanna. Þar með var rofið það vinnulag sem áður hafði tíðkast að allir stjórnmálaflokkar ættu aðild að slíkri vinnu.
    Í öðru lagi held ég að hæstv. sjútvrh. þurfi að gæta orða sinna hér þegar hann tekur þannig til orða að það sé óeðlilegt að Alþingi sé að gera sérstakar ályktanir og binda þar með hendur endurskoðunarnefndarinnar. Er hæstv. sjútvrh. virkilega að tala um það að einhver nefnd manna úti í bæ hafi hér ríkari rétt til þess að ráða þessum málum til lykta en Alþingi Íslendinga? Hafa þeir Þröstur Ólafsson og Magnús Gunnarsson fengið einhvern einkarétt á því að ráða til lykta sjávarútvegsstefnunni í landinu? Eða er það ekki Alþingi Íslendinga, valdamesta stofnun þjóðarinnar, sem á að lokum að hafa þar síðasta orðið? Ef Alþingi sýnist svo síðar í dag eða á morgun, þá hefur það að sjálfsögðu allan rétt til þess að setja ákvæði um meðferð sjávarútvegsmála ef það telur það til heilla horfa. Ég bið hæstv. sjútvrh. að gæta sín í þessum efnum. Alþingi Íslendinga hefur ekki enn afsalað valdi sínu til Þrastar Ólafssonar, sem betur fer og guði sé lof.
    Í öðru lagi fundust mér Heimdallarstælar hæstv. sjútvrh. honum ekki samboðnir, m.a. þegar hann var að svara máli hv. 7. þm. Reykv. Mér finnst að hann þurfi að gæta sín dálítið í því. Er það vikilega þannig að það sé alveg sama hversu óhagstæða menn meta einhverja þróun í sjávarútveginum? Er það skoðun hæstv. sjútvrh. að það eigi að láta slíkt óátalið og ganga fyrir sig bara af því að aðalatriði sé að ekki megi vera með boð og bönn. Boð og bönn voru aðalmálið í huga hæstv. ráðherra. Þetta er Heimdallarstrákamálflutningur sem ég var satt best að segja að vona að hæstv. sjútvrh. væri vaxinn upp úr. Er það sem sagt þannig að það eigi að láta hvaða vitleysu sem er óátalda vegna þess að ekki má vera með boð og bönn og það sé aðalatriðið? Þetta gengur ekki svona, hæstv. sjútvrh., og ég held að við þurfum að eiga hér miklu rólegri og málefnalegri umræðu um þessa hluti en þessi fyrsta ræða hæstv. sjútvrh. gaf tilefni til að halda.