Skálholtsskóli

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 13:39:00 (5166)

     Hjörleifur Guttormsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir útlistun á þingsköpum og skýringum sem fram hafa komið af hennar hálfu. Ég vil aðeins nefna að tillaga mín um það að vísa frv. um Skálholtsskóla til hæstv. menntmn. gengur út frá því að hér sé um málefni að ræða sem varði menntamál og skólamál í landinu og því eðlilegt að menntmn. fjalli um málið. Þetta er óháð því hvaða ráðuneyti taki hugsanlega við þessum skóla. Nú er það menntmrn. sem fer með málefni skólans.
    Ég vil nefna til hliðsjónar að það hefur nokkrum sinnum a.m.k. á undanförnum árum komið til að málum hefur verið vísað til annarrar nefndar en varðar skiptingu málaflokka innan Stjórnarráðsins. Dæmi um það er frá síðasta þingi varðandi frv. um vernd barna og ungmenna sem var vísað til menntmn. þótt frv. gerði ráð fyrir því að málaflokknum yrði ráðstafað til félmrn.
    Annað dæmi, að vísu ekki varðandi skólamál heldur mannanöfn, þá var það á þingi 1990 að hausti að því máli var vísað til menntmn. þó að dómsmrn. hefði með framkvæmd laganna að gera.
    Þetta vildi ég nefna til skýringar um leið og ég ítreka tillögu mína en þeir sem hana styðja greiða þá atkvæði gegn tillögunni sem fyrr verður borin upp.