Fulltrúar Alþingis á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Río de Janeiro

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 14:13:00 (5183)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér finnast vera tvær hliðar á þessu máli. Hér er alveg tvímælalaust um mikilvæga ráðstefnu að ræða og ég vil ekki taka undir með þeim sem hafa talið óþarfa að Íslendingar sæktu slíkar undirskriftaráðstefnur eða hvað þeir nú kalla það. Ég held að það sé ákaflega óheppilegt ef Ísland tekur ekki þátt í alþjóðlegu samstarfi um umhverfismál út af fyrir sig. M.a. þess vegna var sett á stofn, að vísu við töluvert harða andstöðu þáv. stjórnarandstæðinga, umhvrn. m.a. til að geta sinnt með eðlilegum og myndarlegum hætti alþjóðlegu samstarfi um umhverfismál. Þetta var önnur hliðin.
    Í framtíðinni kann að vera að þessi ráðstefna marki nokkur þáttaskil í umhverfismálum veraldarinnar. Mikið er í hana lagt og eftir því sem mér skilst eru bundnar talsverðar vonir við þau straumhvörf sem vonast er til að ráðstefnan marki. Hin hlið málsins er ekki nærri eins góð. Það er að ráðstefnustaðurinn er alveg einstaklega illa valinn og undirbúningur heimamanna við að taka til í Río de Janeiro með því að fjarlægja og að því talið er lífláta útigangsbörn er náttúrlega með þeim hætti að þær spurningar hljóta að vakna hvort sómasamlegt sé að heimsækja svona þjóðir jafnvel þótt í góðum tilgangi sé gert.
    Í mínum huga er spurning um það hvort Alþingi eigi yfirleitt að senda fulltrúa á þessa ráðstefnu. Jafnvel þó mikilvæg sé og ég vil leggja sérstaka áherslu á það að ég held að þessi ráðstefna sé mikilvæg.

    Í öðru lagi er það náttúrlega Alþingis að ákveða með hverjum hætti þátttaka þess verður í svona ráðstefnu, hvort eða hve margir fulltrúar fara þangað. Þótt umhvrn. hafi sent bréf í vetur þá bindur það að sjálfsögðu ekki hendur Alþingis enda var skýrt tekið fram eins og umhvrh. áréttaði að Alþingi væri ætlað að bera kostnaðinn og að sjálfsögðu velur Alþingi fulltrúa sína sjálft. Ég er reiðubúinn að ræða við forseta ásamt formönnum annarra þingflokka um þessa ráðstefnu hvort Alþingi á yfirleitt að eiga þar fulltrúa eða hve margir þeir eigi að vera og hvernig þátttöku Alþingis skuli yfirleitt háttað.
    Ég vil taka fram að ég sat ekki fund þann sem hér hefur verið vitnað til hjá forseta og vil ekki tjá mig um atburði sem þar gerðust eða trúnaðarbrest sem hlotist kann að hafa í kjölfar þess fundar.