Fulltrúar Alþingis á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Río de Janeiro

119. fundur
Mánudaginn 06. apríl 1992, kl. 14:20:00 (5185)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram sem reyndar átti ekki að misskiljast að ég fullyrti ekkert um það að til hefði staðið að senda tugi manna eða 40 manns. Það var ósköp einfaldlega vitnað til þeirra einu upplýsinga sem stjórnarandstaðan hafði um þessi mál og það var umfjöllun fjölmiðla um það að tekin hefðu verið frá svo mörg sæti og vangaveltur um það hversu stór þessi sendinefnd yrði. Það voru einu upplýsingarnar sem stjórnarandstaðan hafði í höndunum um þetta efni fyrir utan bréf umhvrn. frá 7. febr. sl. Það var það eina bréflega sem þingflokkar stjórnarandstöðunnar höfðu í höndunum um þátttöku Íslendinga í ráðstefnunni. Með öðrum orðum, hæstv. forseti, hæstv. umhvrh., þingflokkar stjórnarandstöðunnar og þingflokkar yfirleitt á þinginu voru í þeirri trú að ákveðið hefði verið að senda fulltrúa frá hverjum þingflokki. Þeir fulltrúar höfðu þegar hafið störf við undirbúning að þátttöku í ráðstefnunni, setið marga undirbúningsfundi og sumir þeirra lagt sitt af mörkum í þeim efnum. Við höfðum engar ástæður til að ætla annað en að þetta yrði niðurstaðan. Engin viðbrögð komu frá hinni virðulegu forsætisnefnd eftir að bréfið barst þingflokkum 7. febr. sl. Ég ætlaði að hæstv. forsætisnefnd hefði haft um það upplýsingar í hartnær tvo mánuði að þetta bréf hafði borist þingflokkunum frá umhvrn. Það kemur því eins og þruma úr heiðskíru lofti. Eins og hér var réttilega rakið af síðasta hv. ræðumanni var það án nokkurs samráðs við þingflokkana að forsætisnefnd tilkynnir allt í einu að tekin hafi verið ákvörðun um að senda aðeins tvo fulltrúa frá Alþingi og þar af verði annar þeirra úr röðum stjórnarliða. Í þessu ljósi er óhjákvæmilegt að mótmæla þessari málsmeðferð allri saman.
    Hitt er rétt að taka fram að við erum út af fyrir sig tilbúin til þess að ræða upp á nýtt þátttöku Íslendinga í ráðstefnunni og fara yfir það en við óskum eftir að það verði gert að siðaðra manna hætti á fundum þar sem menn geta talað máli sínu en ekki gegnum leka í Morgunblaðið. Það er ekki hinn rétti samskiptamáti hæstv. forsætisnefndar við aðra þingmenn að gera það í gegnum Morgunblaðið þó að sumum þeirra sem sitja í forsætisnefnd þyki vænt um Morgunblaðið eins og kunnugt er. Þeir eiga ekki að láta það ráða afstöðu sinni í slíkum tilvikum. Við óskum eftir því að slíkt samráð fari fram og verði í fyrsta lagi samráð en ekki tilkynningar og í öðru lagi fari fram á fundum þar sem mönnum gefist kostur á að ræða mál sín. Vonandi er enn hægt að eiga slík samskipti á munnlegu formi en ekki öll í gegnum bréf sem væntanlega verður að senda í ábyrgðarpósti innan tíðar.
    Hæstv. forseti. Ég tel að mótmæli okkar við þessari uppákomu og rangtúlkun á afstöðu okkar í þessu máli hafi komist til skila. Ég vona að hæstv. forseti taki það eins og það er talað til íhugunar og athugunar. Vonandi tekst að gera gott úr því klúðri sem allur undirbúningur á þátttöku Íslands í þessari ráðstefnu er því miður orðinn. Ég ætla ekki að ræða ráðstefnustaðinn eða annað slíkt sem blandast hefur hér inn í umræðuna, en ég segi aðeins það að lokum að aðalatriðið er að niðurstaðan í þessu sambandi verði réttlát og sanngjörn og fulltrúar ólíkra sjónarmiða stjórnar og stjórnarandstöðu og aðrir þeir sem þarna er eðlilegt að verði til staðar verði í sanngjörnum hlutföllum. Það er það sem verið er að fara fram á af okkar hálfu. Við sjáum ekki að neitt það hafi komið fram enn þá sem rökstyðji það sérstaklega að nauðsynlegt sé að skilja tvo af þremur stjórnarandstöðuflokkum á Alþingi algerlega út undan hvað varðar þátttöku Íslands á þessari ráðstefnu.