Röð mála á dagskrá

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 13:50:00 (5207)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það vildi svo til að ég sat ekki fund þingflokksformanna síðast með forseta og veit takmarkað um hvað þar gerðist. Ég gerði enga athugasemd við þá dagskrá, sem þar hefur sjálfsagt verið kynnt, af skiljanlegum ástæðum. En ég kem hér upp, úr því vakið var máls á þessu atriði, að mér sýnist að störfum þingsins sé verið að sigla í nokkurt óefni. Það er fyrst og fremst vegna þess að Alþingi er í meira mæli en nokkurn tíma áður þann tíma sem ég hef setið á þingi að verða afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn. Þetta kann að helgast að nokkru leyti af því að hér hefur verið breytt um starfshætti, frumvörp og þáltill. eru rædd sömu dagana. Eðli málsins samkvæmt eru gjarnan fleiri þáltill. fluttar. Þingsályktunardagana, sem við bjuggum við í gamla skipulaginu, voru tekin jöfnum höndum mál stjórnar og stjórnarandstöðu en nú hefur það skipulag verið í vetur að stjórnarfrumvörpin hafa haft algeran forgang. Einhvers staðar neðarlega á dagskránni hafa dinglað einhver þingmannamál sem síðan hafa ekki komið til umræðu nema í undantekningartilfellum. Ég tel að þetta sé ekki nógu gott skipulag og vil beina því til forseta að hann beiti sér fyrir því, og ég mun fylgja því eftir á fundum formanna þingflokkanna með forseta, að breytt verði um starfshætti og einhverjir dagar teknir undir þingmannamál, þ.e. ekki séu allir dagar undirlagðir einungis í umræðum um stjfrv. Þetta leiðir til þess að einstakir þingmenn fá ekki eðlileg tækifæri til þess að fylgja eftir þeim málum sem þeir hafa flutt.