Vernd barna og ungmenna

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 17:57:00 (5240)



     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Það er fyrst og fremst atriði sem ég vildi aðeins árétta frekar og sem 10. þm. Reykv. gat um og sagði að hefði komið frá Sálfræðingafélagi Íslands sem vafalaust er rétt. Þetta hefur verið rætt víðar og reyndar í nefnd sem var að fjalla um endurskoðun ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu í grunnskólum. Ég vildi fyrst og fremst taka fram að þessi hugmynd er allvíðtæk og að vissu leyti nokkuð merkileg. Hún gerir ráð fyrir því að sett sé upp ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta barna og ungmenna í rauninni frá fæðingu

og til 20 ára aldurs. En það sem ég ætlaði að árétta hér er að þetta er mál sem er ekki hægt að taka eingöngu með þessum málaflokki. Til þess að þetta mætti verða og þessu yrði komið á yrði að íhuga að slík ráðgjafarþjónusta mundi fara inn á svið menntamála, inn á svið heilbrigðismála, inn á svið félagsþjónustu sveitarfélaga, barnaverndarmála og fjölmörg önnur svið. Hins vegar þótti mér að mörgu leyti ágætt að minnst var á þetta og hvet þingmenn til þess að íhuga þessa skipan mála.