Stofnun sjávarútvegsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:16:00 (5326)



     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir skýr svör og ég er honum þakklátur fyrir að hann skuli taka undir þær hugmyndir sem fram kom í skýrslunni frá 1986. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að margt hefur breyst frá því að skýrslan kom út á sínum tíma en ég held þó að breytingarnar séu þess eðlis að þær styðji enn frekar að komið sé á sjávarútvegsskóla á framhaldsskólastigi. Það er ekki nóg að byggja bara upp háskólastigið og hugsa ekki um grunnmenntunina. Ég held að það sé málinu ekki til framdráttar ef menn byrja á því að karpa um það hvar slíkur skóli skuli vera staðsettur. Auðvitað kemur að mínu viti allt til greina í þeim efnum. Hins vegar held ég að með því fyrirkomulagi, sem er á þessari menntun í dag, þrískiptri í Vélskólanum, í Stýrimannaskólanum og í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði, hafi dregið úr aðsókn að skólunum á undanförnum árum. Kennsluhúsnæði er illa nýtt, kennslutæki eru illa nýtt, kennarar, sem ráðnir eru að skólunum, eru að kenna hálfsetnum bekkjum. Á þeim tímum mikils sparnaðar og aðhalds held ég að þetta sé kannski eitt af þeim stærstu verkum sem hægt væri að ráðast í til að spara og hagræða. Og auðvitað hljóta menn í þeirri umræðu allri saman að horfa á það sem fyrir er og sjá að það skólahúsnæði sem er í Reykjavík, sem oft er kallað Stýrimannaskóli Íslands, hentar afskaplega vel til þess að hér sé komið upp öflugum sjávarútvegsskóla á framhaldsskólastigi. Í Hafnarfirði er búið að byggja upp mjög stórt og myndarlegt verkmenntahús fyrir Fiskvinnsluskólann. Það mundi auðvitað nýtast í nánum starfstengslum við sjávarútvegsskóla sem staðsettur væri í Reykjavík. En fyrir alla muni skulum við ekki byrja á því að karpa um hvar slíkur skóli eigi að vera staðsettur því auðvitað er alveg sama hvar hann er. Hann getur auðvitað verið með sín útibú hvar sem er á landinu eins og Stýrimannaskólinn, Vélskólinn og Fiskvinnsluskólinn gera í dag. En ef ætlunin er að huga að því að hagræða og spara þá verða menn auðvitað að nýta það sem fyrir er með sem bestum hætti.
    En ég ítreka þakkir mínar til hæstv. menntmrh.