Stofnun sjávarútvegsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:20:00 (5328)



     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Síst hef ég á móti því að það sé kannað til þrautar hvaða starfsemi megi flytja út á land héðan af höfuðborgarsvæðinu, hvort sem þar er um að ræða skóla, sérskóla eða aðrar stofnanir, en ég bendi aðeins á í þessu samhengi að þessi umræða kviknar kannski nú að nýju vegna þess að það er verið að gera ákveðnar kröfur til skólakerfisins um aðhald í rekstri og öllum kostnaði. En mönnum hefur dottið í hug áður eins og hér kom fram bæði hjá fyrirspyrjanda og mér áðan að sameina þessa skóla. En eins og ég segi, umræðan núna á sér auðvitað stað vegna þess að nemendum hefur fækkað, einkum í Stýrimannaskólanum. Þessi skóli er afar vel búinn tækjum og ég held að það mundi hafa í för með sér meiri kostnað en við treystum okkur til að leggja í núna að fara að flytja svona stofnun út á land. Auðvitað verður þetta nám stundað að einhverju leyti úti á landi eins og hér hefur komið fram og er þegar gert. En þeir skólar, eins og t.d. á Dalvík, starfa samkvæmt lögunum um framhaldsskóla og það er auðvitað hægt að hugsa sér þetta nám víðar um land. Það er alveg ljóst.
    Ég tel sem sagt sjálfsagt að athuga hvar úti á landsbyggðinni hægt er að láta í té kennslu í þessum efnum. Ég hef ekki við höndina upplýsingar en er að sjálfsögðu ekkert að rengja þær upplýsingar sem komu fram að mikill meiri hluti nemenda við Fiskvinnsluskólann komi utan af landi. Það er eins með hann að hann er mjög vel búinn, þ.e. verklega hliðin í kennslu Fiskvinnsluskólans býr við mjög góðar aðstæður en hins vegar ekki bóknámshliðin. Það nám fer fram á allt öðrum stað í Hafnarfirði þar sem skólinn er og þarf þess vegna að hyggja að bættum aðbúnaði þess skóla að því er tekur til bóknámsins.
    Ég vil líka láta þess getið í leiðinni að það á sér þegar stað gott samstarf á milli Vélskólans og Stýrimannaskólans í Reykjavík enda eru þeir nánast í sömu byggingunni.