Mengun frá bandaríska hernum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:25:00 (5350)


     Bryndís Friðgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mig langar til þess að bæta aðeins inn í þessa umræðu. Margir voru ekki hér í nótt þegar umræður fóru fram um varnarliðið og þá ógn sem okkur stafar af óþverranum sem frá því kemur. Þá kom einnig fram í umræðum um það mál að upplýsingum væri haldið leyndum og farið hefði verið í launkofa með það hversu hættuleg efni væru í jarðvegi og grunnvatni á þeim svæðum þar sem herinn hefur aðstöðu. Svo kom líka fram í umræðunni hvort þetta væri pólitískt mál og hvort herstöðvarsinnar væru að halda þessu leyndu og herstöðvaandstæðingar væru að rífa þetta mál upp. Ég vil bara benda þeim á það sem hafa boðið þessum gestum að vera hjá sér að passa upp á það að við verðum ekki gestirnir að lokum sem verðum að biðjast afsökunar. Það yrði herstöðvarsinnum kannski til framdráttar að þeir fengju herinn til þess að þrífa upp eftir sig svo að hann væri ekki eins óvelkominn og raun ber vitni.